Þurrmjólkurþjófagengi upprætt

Þurrmjólkurdós sem kostar 30 dali út úr búð í Ástralíu …
Þurrmjólkurdós sem kostar 30 dali út úr búð í Ástralíu hefur verið seld á rúmlega 100 dali í Kína. AFP

Ástralska lögreglan hefur handtekið sex liðsmenn glæpasamtaka sem hafa stolið þurrmjólk sem er síðan seld ólöglega í Kína. Undanfarna 12 mánuði hefur þurrmjólk að andvirði 1 milljón Ástralíudala, rúmlega 87 milljónir króna, verið stolið í Ástralíu.

Lögreglan telur að glæpahópurinn hafi starfað árum saman en áströlsk þurrmjólk hefur gengið undir gælunafninu „hvítagull“ í Kína vegna þess að hún þykir betri og öruggari heldur en innlend framleiðsla.

Rúmlega þrítugur maður var handtekinn á alþjóðaflugvellinum í Sydney á laugardag en hann var að koma með flugi frá Kína. Á undanförnum mánuðum hafa þrír karlar og tvær konur úr sama glæpahópi verið handtekin og þau ákærð fyrir stuld á þurrmjólk. 

BBC hefur eftir yfirmanni rannsóknardeildar lögreglu, Danny Doherty, að þúsundir þurrmjólkursendinga hafi farið sjóleiðina frá Ástralíu til Kína undanfarin ár. Lögreglan hefur lagt hald á þýfi, svo sem vítamín, í aðgerðum tengdum þurrmjólkurglæpagenginu og yfir 215 þúsund Ástralíudali í reiðufé. Þurrmjólkurdós sem kostar 30 dali út úr búð í Ástralíu hefur verið seld á rúmlega 100 dali í Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert