Neyðarástand vegna innrásar ísbjarna

Ísbjörn á ferð í Manitoba í Kanada. Mynd úr safni.
Ísbjörn á ferð í Manitoba í Kanada. Mynd úr safni. AFP

Foreldrar á hinni afskekktu Novaya Zemlya-eyju úti fyrir norðausturströnd Rússlands eru nú hræddir við að senda börn sín í skólann eftir „hópinnrás“ ísbjarna á byggð svæði.

Rússneska ríkisfréttastofan TASS segir tugi ísbjarna hafa leitað inn á þéttbýli á eyjunni frá því í lok síðasta árs. Um 50 tilkynningar um ísbirni hafa borist í stærsta bæ eyjunnar, Belushya Guba, þar sem um 2.500 manns búa.

CNN-sjónvarpsstöðin hefur eftir Alexander Minayev, einum ráðamanna bæjarins, að ísbirnir hafi ráðist á fólk og farið inn í hús. Þannig var neyðarástandi lýst yfir sl. laugardag þegar sást til allt að 10 ísbjarna í byggð á sama tíma.

„Fólk er óttaslegið. Það er hrætt við að yfirgefa heimili sín og það kemst rót á hefðbundna rútínu,“ segir Minaeyv. „Foreldrar eru hræddir við að senda börn sín í skólann og leikskólann.“

Tilfellum þar sem ísbirnir leita á mannaslóðir fjölgar stöðugt er ísinn hopar af heimaslóðum bjarnanna í kjölfar loftslagsbreytinga.

„Ísbirnir reiða sig á seli sem fæðu og selir reiða sig á hafísinn. Ísinn bráðnar með hnattrænni hlýnun, þannig að þetta er keðjuverkun sem hefur áhrif á möguleika bjarnanna til að lifa af,“ hefur CNN eftir Liz Greengrass, forstjóra Born Free-náttúrulífssamtakanna.

World Wildlife Fund-náttúrulífssamtökin hafa komið upp eftirlitsferðum í sumum byggðum á norðurheimskautssvæðinu til að koma í veg fyrir banvæn kynni bjarna og manna, auk þess sem kynntar hafa verið til sögunnar hljóðafælur, sterkari lýsing og bjarnheldar matvælageymslur.

mbl.is
Citroen c5 station 2008 til sölu
Vel með farin C5 station til sölu .skoðaður 19. nagladekk. óryðgaður. skipti mög...
Pallhýsi Travel Lite á Íslandi
Nú er að verða síðasti möguleiki að panta pallhýsi, ef það á að vera tilbúið fyr...
KRISTALS LJÓSAKRÓNUR
Glæsilegar kristalsljósakrónur fyrir falleg heimili. Handskornar kristalsljósak...
Bókalind - antikbókabúð
Höfum á boðstólnum fjölbreytta flóru af bókum. Við erum með t.d. orðabækur, matr...