Stuðningsmaður Trump réðst á myndatökumann

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræðir við stuðningsmenn sína á fundinum í …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ræðir við stuðningsmenn sína á fundinum í El Paso í gær. AFP

Einn af stuðningsmönnum Donald Trump Bandaríkjaforseta réðst á myndatökumann BBC á stuðningsfundi fyrir forsetann í El Paso í Texas í gær. Maðurinn sem bar derhúfu með áletruninni Make America Great Again ýtti myndatökumanninum, Ron Skeans, og öðrum í teymi hans og blótaði þeim í sand og ösku áður en hann var dreginn á brott.

„Ég vissi ekki hvað var að gerast,“ hefur BBC eftir Skeans sem sagði manninn hafa komið honum að óvörum er hann hrinti honum harkalega.

Trump var á staðnum og sá atvikið og segir BBC hann hafa staðfest eftir á með handahreyfingu að væri í lagi með Skeans áður en hann hélt áfram með ræðu sína.

Samband forsetans við fjölmiðla hefur verið nokkuð stormasamt frá því hann tók við embætti. Hefur Trump þannig fullyrt að fréttamenn séu „óvinir fólksins“ og fordæmt fréttir sem eru honum ekki í hag sem „falskar fréttir“.

Að sögn Skeans hrinti maðurinn honum og myndavél hans næstum um koll í tvígang áður en bloggari náði að draga hann á brott. Aðrir úr teymi myndatökumannsins urðu einnig fyrir barðinu á árásarmanninum, en ekki þó í sama mæli.

Einn starfsmanna framboðs forsetans fullyrti eftir á að árásarmaðurinn hefði verið drukkinn. Gary O'Donoghue, fréttaritari BBC í Washington, sagði árásina hafa „verið verulega ofbeldisfulla“.

„Þetta er stöðugur þáttur í þessum stuðningsmannafundum — að egna fundargesti gegn fjölmiðlum,“ sagði hann og kvaðst áður hafa orðið fyrir því á slíkum fundi að það væri hrækt á sig.

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna vöruðu í fyrra við árásum Trumps á fjölmiðla og sögðu þá auka hættuna á að fjölmiðlafólk sætti ofbeldi.

mbl.is