Með 100.000 pillur á flugvellinum

Maður á sextugsaldri var stöðvaður á Gardermoen-flugvelli á mánudaginn með …
Maður á sextugsaldri var stöðvaður á Gardermoen-flugvelli á mánudaginn með 100.700 töflur af verkjalyfinu Tramadol í farangri sínum. Tollstjóri segir allt eins víst að Tramadol sem smyglað er til Noregs sé á leið á sænskan markað vegna ólíkra reglna landanna um lyfið. Ljósmynd/Norska tollgæslan

Norska tollgæslan óttast fleiri dauðsföll af völdum sterkra verkjalyfja í kjölfar nokkurra stórra verkjalyfjamála á landamærum undanfarnar vikur. Á mánudag var maður á sextugsaldri tekinn á Gardermoen-flugvelli með 100.700 töflur af verkjalyfinu Tramadol í fórum sínum en í janúar fundu tollverðir við Svínasund, á landamærum Noregs og Svíþjóðar, 161.878 töflur af sama lyfi í vörubifreið auk 97.750 taflna sem innihéldu virka efnið díazepam, benzódíazepínafbrigði sem hefur sterka róandi og kvíðastillandi verkun.

Tölur norsku Lýðheilsustofnunarinnar, sem tollgæslan vísar til í skýrslu sinni sem norska dagblaðið VG hefur undir höndum, sýna að árið 2016 mátti í fyrsta sinn rekja fleiri dauðsföll í Noregi til sterkra verkjalyfja en til heróíns. Tollstjóri mælist til þess að Tramadol verði flokkað sem fíkniefni, eins og gert er í Svíþjóð og fleiri Evrópulöndum. Tramadol var gert eftirritunarskylt á Íslandi 1. janúar 2013, sem táknar að vegna eiginleika sinna geti það haft í för með sér sérstaka hættu á misnotkun.

Faraldur og samfélagsmein

„Þetta er læknalyfjafaraldur og stækkandi samfélagsmein,“ segir Øystein Børmer, tollstjóri Noregs, í samtali við VG. „Við óttumst að þetta leiði til enn fleiri dauðsfalla, eins og við höfum séð í öðrum löndum,“ segir hann enn fremur og bendir á knýjandi þörf þess að vörslur óávísaðs Tramadols verði gerðar ólöglegar í Noregi eins og í mörgum öðrum Evrópulöndum.

„Þetta sem tekið var við Svínasund átti augljóslega að fara á markað í Noregi, í sumum hinna málanna er vel mögulegt að selja hafi átt efnin í nágrannalandinu. Mun minni áhætta felst í því að vera tekinn með læknalyf í Noregi en fíkniefni í Svíþjóð,“ segir Børmer og vísar til mismunandi reglna um Tramadol í nágrannalöndunum en Svíar flokkuðu það sem fíknilyf með læknandi virkni (s. narkotiska läkemedel) árið 2012 og er því ólöglegt að hafa það undir höndum þar í landi án lyfseðils. Sænsk tollgæsla lagði hald á 1,1 milljón Tramadol-taflna á árinu 2017 einu.

Frá árinu 2016 til og með mánudeginum 11. febrúar í ár hefur norska tollgæslan lagt hald á 580.637 Tramadol-töflur en magnið er mjög sveiflukennt milli ára, 7.046 töflur árið 2016, 295.931 árið 2017, 12.997 árið 2018 og heilar 264.663 töflur það sem af er árinu 2019.

„Meiri ávanabindandi verkun en við töldum“

Notkun þeirra sem fá efnið eftir löglegum leiðum, uppáskrifað frá heimilislækni, hefur margfaldast frá aldamótum svo sem lesa má úr tölum Lyfseðlaeftirlitsins (n. Reseptregisteret) en fjöldi löglega fenginna Tramadol-taflna jókst úr 60.806 töflum árið 2004 í 224.790 árið 2017.

VG leitaði til Lyfjaeftirlitsins og forvitnaðist um hvers vegna flokkun Tramadols hefði ekki verið breytt í Noregi og varð þar fyrir svörum Steinar Madsen, fagstjóri í lyfjafræði (n. medisinsk fagdirektør), sem segir fagstýrihóp embættisins í lyfjaflokkun einmitt vera að skoða hvort rétt sé að færa Tramdol um flokk. „Tramadol er ávanabindandi efni og það hefur kannski meiri ávanabindandi verkun en við töldum til að byrja með,“ svarar Madsen.

Aftenposten

TV2

TV2 (umfjöllun um verkjalyfjafíkn frá október í fyrra)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert