Krefjast skýringa á glæfraflugi Rússa

Eins og sjá má var rússneska orrustuþotan afar nærri sænsku …
Eins og sjá má var rússneska orrustuþotan afar nærri sænsku eftirlitsflugvélinni. Ljósmynd/Försvarsmakten

Utanríkisráðuneyti Svíþjóðar hefur kallað sendiherra Rússlands í landinu á sinn fund á morgun, vegna glæfralegs flugs rússneskrar herþotu yfir Eystrasaltinu í síðustu viku, en herþotan flaug einungis 20 metra frá sænskri eftirlitsflugvél. Sænska ríkisútvarpið SVT greindi frá þessu fyrr í dag.

Diana Qudhaib, talsmaður ráðuneytisins, segir að atvikið sé litið alvarlegum augum og að rússneska flugvélin hafi flogið með óviðeigendi hætti, sem hafi stefnt öryggi allra hlutaðeigandi í hættu.

Atvikið átti sér stað í alþjóðlegri lofhelgi á þriðjudag, á milli Gautlands í Svíþjóð og Eystrasaltsríkjanna, á svæði þar sem Svíar hafa fullan rétt á að fljúga um.

„Ónauðsynlegt, ögrandi og hættulegt“

Anders Persson, ofursti í sænska hernum, segir við fréttaveituna TT að rússneska þotan hafi flogið með ögrandi hætti.

„Fyrst fór hún fram hjá okkur og síðan komu þeir aftur og staðsettu sig mjög, mjög nærri okkur. Nær en venjulega,“ sagði Persson.

Sænski herinn tilkynnti atvikið til ríkisstjórnarinnar og nú hefur utanríkisráðuneytið krafist svara. Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, segir að atvikið sé „óásættanlegt“.

„Þetta var ónauðsynlegt, ögrandi og mjög hættulegt,“ sagði Hultqvist við SVT.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert