„Fljótfæri vígamaðurinn“ getur átt sig

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern.
Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern. AFP

Nýsjálendingur sem gengur undir viðurnefninu „fljótfæri vígamaðurinn“ getur ekki vænst stuðnings frá heimalandinu segir forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, en maðurinn er í haldi Kúrda eftir að hafa verið handtekinn í Sýrlandi þar sem hann barðist með Ríki íslams.

Mark Taylor, sem er 42 ára gamall, segir í viðtali við ástralska sjónvarpið að hann hafi starfað með vígasamtökunum Ríki íslams í fimm ár en flúið í desember og gefið sig fram við hersveitir Kúrda. Hann segir að aðstæðurnar sem hann hafi búið við meðal vígamannanna hafi verið orðnar óbærilegar.

„Það var enginn matur, engir peningar og nánast öll grunnþjónusta var í molum,“ segir hann í viðtalinu sem var tekið í fangelsi Kúrda. Ekki hafi verið annað í boði en að láta sig hverfa. 

AFP

Taylor fékk viðurnefnið árið 2015 eftir að hafa sent út áróðursskeyti Ríkis íslams á Twitter en gleymt að aftengja staðsetningu sína þannig að allir gátu séð hvaðan skeytin voru send. Hann segir að þessi mistök hafi kostað hann fimmtíu daga fangavist í fangelsi Ríkis íslams.

Hann birtist einnig í áróðursmyndskeiðum vígasamtakanna þar sem hann kveikti meðal annars í nýsjálenska vegabréfinu sínu og hvatti öfgafólk til þess að fremja hryðjuverk í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Ardern segir að Taylor verði ekki sviptur nýsjálenskum ríkisborgararétti enda sé hann ekki með tvöfalt ríkisfang. Fylgja þurfi alþjóðalögum og ekki sé hægt að gera einhvern ríkisfangslausan. Hún segir að ekki komi til greina að starfsmenn utanríkisþjónustunnar fari að hitta hann enda séu Nýsjálendingar ekki með sendifulltrúa á þessum slóðum. Það eina sem yfirvöld viti um Taylor hafi þau séð í fjölmiðlum.

Ef Taylor vilji komast heim til Nýja-Sjálands muni hann væntanlega setja sig í samband við fulltrúa landsins í Tyrklandi.

Dómsmálaráðherra Nýja-Sjálands, Andrew Little, segir að ef Taylor geri það muni hann væntanlega verða ákærður fyrir brot á hryðjuverkalögum sem þýði að hann fari beint í fangelsi. Ardern segir að ekkert í lögum kveði á um að ríkið eigi að veita Taylor lagalega aðstoð ef hann verður ákærður í öðru ríki. Né heldur bæri því skylda til þess að greiða fyrir heimferð hans.

Hún vildi ekki tjá sig um hversu alvarleg ógn stafaði af Taylor ef hann ákvæði að fara heim en unnið væri að því að tryggja öryggi landsmanna fyrir ógn sem stafi af vígamönnum sem snúa aftur heim.

Ardern neitaði einnig að tjá sig um viðtalið við Taylor en þar hélt hann því fram að hann hafi ekki barist fyrir Ríki íslams og að hann hafi verið of fátækur til þess að kaupa sér þræl úr hópi jazída þegar hann dvaldi í Ríki íslams. 

Frétt Newshub

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert