„Þeir eru að drepa okkur úr hungri og þorsta“

Fólk að sækja sér vatn úr skolpleiðslunum við Guaire-ána.
Fólk að sækja sér vatn úr skolpleiðslunum við Guaire-ána. AFP

Nú þegar Venesúelamenn hafa verið rafmagnslausir í um sex sólarhringa og þar með án vatns hafa þeir neyðst til að gera hið óhugsandi: Leita í skolpræsin.

Í frétt Reuters-fréttastofunnar um málið segir að fólk hafi flykkst að skolpleiðslu sem úr rennur í ána Guaire sem liðast um gljúfur meðfram hraðbraut í höfuðborginni Caracas. Fólkið hafði með sér stóra plastbrúsa. Guaire-áin er mjög menguð af skolpi og gruggug eftir því. En úr leiðslunni sem fólkið safnaðist við virtist vatnið að minnsta kosti tært. Fólkið hafði heyrt að borgaryfirvöld hefðu hleypt vatni úr uppistöðulónum í gegnum leiðsluna. Vatnið er þó alls ekki drykkjarhæft, það hefur farið í gegnum óhreinar frárennslis- og skolpleiðslur. En það má nota það til að sturta niður úr klósettunum eða til að skúra gólf.

„Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt, þetta er hræðilegt, hræðilegt,“ hefur fréttamaður Reuters eftir Lilibeth Tejedor, 28 ára. Hún er í hópi þeirra sem neyðst hafa til að sækja sér vatnið úr leiðslunni. Hún á tveggja ára dóttur og sér auk þess um tvær ungar frænkur sínar. „Þeir sem verða fyrir mestum áhrifum eru börnin, því hvernig áttu að segja við börn að það sé ekkert vatn?“

Hópur manna við skolpleiðsluna í Caracas í gær.
Hópur manna við skolpleiðsluna í Caracas í gær. AFP

Vatnsskortur er nú ein alvarlegasta aukaverkun rafmagnsleysisins í Venesúela. Nicolas Maduro forseti hefur kennt Bandaríkjamönnum um og segir þá hafa stutt einhverja til skemmdarverka. Gagnrýnendur hans segja hins vegar að rafmagnsleysið sé spillingu og getuleysi hans sjálfs að kenna.

Rafmagnsleysið hefur aukið enn bág kjör fólksins í landinu en það hafði þegar þurft að glíma við áhrif óðaverðbólgu, hruns alls hagkerfisins, fólksflótta og matar- og lyfjaskort. Hveiti og klósettpappír eru t.d. vörur sem nú eru aðeins á færi mjög fárra. 

Vatnsdælurnar þurfa rafmagn og nú þegar um sex sólarhringar eru liðnir frá því rafmagnsleysið hóf að breiðast út verða sífellt fleiri án vatns. Óþefinn er farið að leggja upp úr klósettum. 

Íbúar Caracas þurfa 20 þúsund vatnslítra á hverri sekúndu en í síðustu viku voru aðeins um 13 þúsund lítrar í boði. Svo skall rafmagnsleysið á. Og dælurnar eru hættar að flytja vatnið.

Margir óttast nú útbreiðslu smitsjúkdóma. Ekki nóg með að vatnið sé af skornum skammti heldur hafa fæstir efni á því að kaupa sér sápu. 

„Þeir eru að drepa okkur úr hungri og þorsta,“ hefur Reuters eftir hinni rúmlega fimmtugu Glayd Martinez sem tók þátt í mótmælum í vikunni. Mótmælendurnir stöðvuðu umferð svo lögreglan þusti á vettvang.

Fólk bíður í röðum eftir að fá vatn úr vatnsflutningabílum.
Fólk bíður í röðum eftir að fá vatn úr vatnsflutningabílum. AFP

Vatnsflutningabílar eru algengir á götum Caracas en þeim er tekið að fækka. Skýringin er m.a. sú að vatnið í uppistöðulónunum hefur minnkað. Sumir hafa brugðið á það ráð að fara í þjóðgarð í nágrenni höfuðborgarinnar og sækja sér vatn úr lækjum. 

Stjórnarandstöðuleiðtoginn Juan Guaido, sem nýtur m.a. stuðnings Bandaríkjamanna, hefur lýst yfir neyðarástandi í landinu vegna rafmagnsleysisins. Bandaríkin og fleiri beita Venesúela nú hörðum viðskiptaþvingunum svo ríkið getur ekki aflað sér tekna.

Jose Velez, sem kominn er að ánni til að sækja sér vatn, segir það eitt skipta máli að lífinu sé komið í samt horf, að deilur séu leystar. „Ég hef engan áhuga á þessum stjórnmálamönnum, þeir geta aldrei verið sammála um neitt. En ég vil að lífið mitt verði aftur eins og það var.“

mbl.is
Bensínhjólbörur
Eigum til bensínhjólbörur með 7.5hp Briggs & Stratton, Drif á öllum, 4 gírar á...
Vetur í Tungunum, Eyjasól ehf.
Nú er að skella sér í sumarbústað um helgina og eða næstu... Rúm fyrir 5-6. Tak...
HRINGSTIGAR _ HRINGSTIGAR
Hringstigar, úti sem inni. Þvermál 120, 130, 140, 150, 160, 170 cm og sérsmíði í...
Kolaportið alltaf gott veður!
Góða veðrið og góða skapið er í KOLAPORTINU!...