Gæti enn farið út án samnings

Jacob Rees-Mogg, þingmaður breska Íhaldsflokksins.
Jacob Rees-Mogg, þingmaður breska Íhaldsflokksins. AFP

Þingmaðurinn Jacob Rees-Mogg óskaði eftir því við John Bercow, forseta neðri deildar breska þingsins, í kvöld, eftir að meirihluti þingmanna hafði samþykkt þingsályktun um að Bretland færi ekki úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings, að hann staðfesti þann skilning sinn að þingsályktanir gætu ekki breytt gildandi lögum.

Berkow staðfesti þann skilning Rees-Moggs, sem situr á þingi fyrir Íhaldsflokkinn, en fyrir tæpum tveimur árum var lagafrumvarp samþykkt í breska þinginu þar sem grein 50 í Lissabon-sáttmála sambandsins var virkjuð en hún kveður á um að þar með fari í gang tveggja ára tímabil þar til viðkomandi ríki yfirgefur það formlega.

Samkvæmt umræddum lögum mun útganga Bretlands úr Evrópusambandinu eiga sér stað 29. mars klukkan 23:00 hvort sem útgöngusamningur liggur þá fyrir eða ekki. Með öðrum orðum fela lögin í sér að Bretar munu ganga úr sambandinu án slíks samnings liggi hann ekki fyrir. Þingsályktunin sem samþykkt var í kvöld breytir því ekki.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, kom inn á þetta að sama skapi þegar hún ávarpaði neðri deildina í kvöld eftir að atkvæðagreiðslan hafði farið fram. Sagði hún stöðuna óbreytta að þessu leyti þrátt fyrir niðurstöðuna. Útganga án samnings væri enn það sem gerðist ef ekki lægi fyrir eitthvað annað sem kæmi í stað hennar.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert