Dómsmálaráðherra Noregs stígur til hliðar

Tor Mikkel Wara dómsmálaráðherra Noregs (t.v.) hefur stigið til hliðar …
Tor Mikkel Wara dómsmálaráðherra Noregs (t.v.) hefur stigið til hliðar vegna þessa stórfurðulega máls. AFP

Norska dómsmálaráðherranum Tor Mikkel Wara hefur verið gerð ýmis skráveifa síðustu vikurnar, hvort tveggja í formi hótana og ýmissa spellvirkja gagnvart bifreið hans, en þar tók steininn úr þegar kveikt var í bílnum á sunnudaginn. Áður hafði verið reynt að kveikja í honum, aðfaranótt 6. desember, auk þess sem þá var orðið „rasist“, eða kynþáttahatari, úðamálað á hús fjölskyldunnar og bílinn.

Alls eru tilfellin fimm sem vitað er um og hægt að kalla einhvers konar árásir eða hótanir í garð ráðherrans sem ekki hefur verið óumdeildur síðan hann tók við embætti, meðal annars fyrir að reka harða stefnu gegn innflytjendum.

Norðmenn rak í rogastans í dag þegar fjölmiðlar landsins greindu frá því að öryggisþjónusta lögreglunnar, PST, hefði nú haft hendur í hári aðilans sem grunaður er um að standa á bak við bílbrunann á sunnudaginn, Lailu Anitu Bertheussen, sambýliskonu Wara.

Það var Erna Solberg forsætisráðherra sem kallaði Wara inn á skrifstofu til sín nú síðdegis og tilkynnti honum um handtökuna og voru viðbrögð dómsmálaráðherrans vantrú, skelfing og að lokum hreint áfall.

Solberg ávarpaði norsku þjóðina á blaðamannafundi nú klukkan 16:50 að norskum tíma og greindi frá handtökunni og að Wara hefði þegar beðið hana um leyfi frá öllum embættisstörfum til að átta sig á umfangi málsins og næstu skrefum. „Áfall fyrir alla ríkisstjórnina,“ sagði Solberg þegar hún lýsti fyrstu viðbrögðum við tíðindunum.

Hefur Jon Georg Dale samgönguráðherra þegar verið settur ráðherra dóms- og innflytjendamála í fjarveru Wara en tæknideild lögreglu er nú önnum kafin við rannsóknir á heimili ráðherrans forfallaða sem beinast að því að afla frekari gagna í máli sökudólgsins óvænta.

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert