Á yfir höfði sér dóm án fordæma

Brenton Tarrant þegar hann var leiddur fyrir dómara á laugardaginn.
Brenton Tarrant þegar hann var leiddur fyrir dómara á laugardaginn. AFP

Vígamaðurinn sem drap fimmtíu manns á Nýja-Sjálandi á yfir höfði sér dóm sem engin fordæmi eru fyrir og án möguleika á reynslulausn. Maðurinn gæti þó komist hjá því að verða dæmdur fyrir hryðjuverk.

Þetta segja sérfræðingar í samtali við AFP-fréttastofuna.

Brenton Tarrant, sem er 28 ára Ástrali, hefur verið ákærður fyrir eitt morð í borginni Christchurch og á yfir höfði sér lífstíðardóm. Á Nýja-Sjálandi sitja þeir sem eru dæmdir fyrir morð yfirleitt inni í tíu ár áður en þeir eiga möguleika á reynslulausn.

Sérfræðingarnir segja að meintir glæpir Tarrant séu svo öfgakenndir að hann gæti hlotið þyngsta dóm sem nýsjálenskur dómari hefur fellt síðan dauðarefsingin var afnumin í landinu árið 1961.

„Hann gæti verið dæmdur í fangelsi án möguleika á reynslulausn. Það er stór möguleiki á því,“ sagði lögfræðingurinn Simon Cullen, sem sérhæfir sig í glæpum. Hann bætti við að engin fordæmi séu fyrir slíkum dómi.

Þyngsti dómurinn fyrir morð á Nýja-Sjálandi féll árið 2001 þegar William Bell hlaut lífstíðardóm með 30 ára lágmarksafplánun fyrir þrjú morð.

Blómsveigur til minningar um fórnarlömb árásarinnar.
Blómsveigur til minningar um fórnarlömb árásarinnar. AFP

Ónotuð hryðjuverkalög

Bill Hodge, sérfræðingur við háskólann í Auckland, segir að þrátt fyrir að forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, hafi sagt voðaverkið í Christchurch vera hryðjuverk þá er mögulegt að saksóknarar fari ekki þá leiðina.

Lög vegna hryðjuverka tóku gildi á Nýja-Sjálandi árið 2002 eftir hryðjuverkarárásirnar í Bandaríkjunum 2001 en aldrei hefur reynt á þau fyrir dómstólum. „Við höfum aldrei notað hryðjuverkalögin en lögin eru sniðin að því að stöðva eða lögsækja þá sem eru hluti af hópum, taka þátt í fjármögnun, útgáfu eða öðru í þeim dúr,“ sagði Hodge.

„Ég tel enga ástæðu fyrir því að notast við lög sem hafa ekki verið notuð áður á sama tíma og hegningarlögin, þar sem tekist er á við morðtilraunir og manndráp, eru fullkomlega nothæf og skiljast auðveldlega.“

Hann bætti við að með því að kæra Tarrant fyrir hryðjuverk gæti áfrýjunarferlið orðið lengra en ella.

Þrátt fyrir að 50 hafi verið drepnir í Christchurch hefur lögreglan aðeins ákært Tarrant fyrir eitt morð. Þetta er ekki óvenjulegt á Nýja-Sjálandi þar sem fyrsta meinta brotið er notað til að hafa hinn ákærða í haldi á meðan lögreglan rannsakar málið betur.

Íbúar í Christchurch sorgmæddir eftir árásina.
Íbúar í Christchurch sorgmæddir eftir árásina. AFP

Ákærður fyrir að dreifa upptöku

Sérfræðingar telja einnig að engin fordæmi séu fyrir ákærum á hendur átján ára táningi fyrir að dreifa upptöku af voðaverki Tarrant í beinni útsendingu á netinu, því venjulega er fólk ákært fyrir að dreifa efni tengdu klámi. Táningurinn hefur verið ákærður í tveimur liðum fyrir að dreifa árásinni á netinu og fyrir að dreifa „ámælisverðu“ efni um aðra af moskunum þar sem árásin var gerð.

Hann er ekki talinn hafa átt beinan þátt í árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert