Ætlar að verja sig sjálfur

Byssulöggjöfin á Nýja-Sjálandi verður hert í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á föstudag. Vígamaður, sem trúir á yfirburði hvíta kynstofnsins, ætlar að verja sig sjálfur en hann er ákærður fyrir hryðjuverk í tveimur moskum í Christchurch. 

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, segir að einhugur sé um að herða þurfi byssulöggjöf landsins innan ríkisstjórnarinnar. Með því verði hægt að draga úr líkum á því að menn eins og Brenton Tarrant geti orðið sér úti um vopn eins og hann notaði við hryðjuverkin.

Arderm greindi frá þessu í dag en áður hafði Winston Peters, varaforsætisráðherra og formaður Nýja-Sjáland-fyrst, lagst gegn breytingunum en nú segist hann styðja þær. „Heimur okkar breyttist til frambúðar klukkan 13 á föstudaginn og það munu lög okkar einnig gera,“ segir Peters.

Ardern segir að rannsókn muni fara fram en mjög er rætt um hvers vegna leyniþjónustustofnanir hafi ekki fylgst með Tarrant. Eins hefur verið rætt um hlutverk samfélagsmiðla í ljósi þess að árásarmaðurinn streymdi voðaverkum sínum á Facebook.

Unglingur var leiddur fyrir dómara í dag ákærður fyrir að hafa dreift myndefninu. Gríðarleg sorg ríkir á Nýja-Sjálandi og stendur þjóðin saman í að lýsa andstyggð sinni á hryðjuverkaárásunum og gegn rasisma. 

Hreinsunarathöfn maóra (frumbyggja Nýja-Sjálands) var haldin í Al Noor-moskunni þar sem Tarrant fór fyrst inn. Tóku leiðtogar ólíkra þjóðarbrota þátt í athöfninni sem og stjórnmálamenn. 

Fjölskyldur þeirra 50 sem drepnir voru í árásunum á moskurnar tvær bíða enn heimildar til þess að fá líkin afhent en unnið er að réttarmeinarannsókn. Þau sem létust eru frá þriggja ára til 77 ára og meðal þeirra eru feðgar. Fimm Indverjar eru meðal þeirra látnu og níu Pakistanar. 31 er enn á sjúkrahúsi og af þeim eru níu í lífshættu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert