Feðgar jarðsettir í Christchurch

Útför fyrstu fórnarlamba árásarinnar í Christchurch fór fram í dag þegar feðgar frá Sýrlandi voru jarðsettir. Fleiri útfarir fara fram í dag. Annar maður hefur verið ákærður fyrir að dreifa streymi árásarmannsins á netinu. 

Khaled Mustafa, 44 ára, og Hamza, 16 ára gamall sonur hans, komu sem flóttamenn til Nýja-Sjálands í fyrra. Þeir voru meðal þeirra sem ástralski vígamaðurinn skaut til bana í Al-Noor-moskunni á föstudag.

Hefðir íslams gera ráð fyrir því að látnir séu grafnir eins fljótt og auðið er en vegna réttarmeinarannsóknar hefur það ekki verið hægt fyrr en í dag. 

Hundruð syrgjenda komu saman í kirkjugarði skammt frá Linwood Islamic Centre í  Christchurch í dag til þess að kveðja fórnarlömb árásarinnar. 

Khaled lætur eftir sig eiginkonu og dreng, Zaid Mustafa, sem særðist í árásinni. Hann var í hjólastól við útför föður síns og bróður. Hann sagði við ættingja og vini að hann hefði átt að vera þarna með föður sínum og bróður. Dáinn. 

Á yfir höfði sér 14 ára fangelsi

Philip Arps, 44 ára, var handtekinn af lögreglunni á Nýja-Sjálandi í gær og hefur verið ákærður fyrir að streyma myndskeiði af hryðjuverkunum í tveimur moskum beint á netinu. 50 létust í árásunum og tugir særðust.

Arps var úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrir héraðsdómi í Christchurch í dag en hann á að koma aftur fyrir dómara 15. apríl. Unglingur var einnig ákærður fyrir hið sama fyrr í vikunni. Þeir eiga báðir yfir höfði sér allt að 14 ára fangelsisdóm verði þeir fundnir sekir.

Líkt og fram hefur komið streymdi árásarmaðurinn beint frá því þegar hann skaut fólk með köldu blóði í Al Noor- og Linwood-moskunum.

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, greindi frá því í dag að á föstudag verði tveggja mínútna þögn í landinu en þá er vika síðan hryðjuverkin voru framin. Jafnframt verður útvarpað og sjónvarpað frá föstudagsbænakalli.

Hún heimsótti Cashmere-menntaskólann í dag en tveir nemendur skólans, Sayyad Milne og Hamza Mustafa, létust í árásinni auk fyrrverandi nemanda, Tariq Omar. Hún bað nemendur um að aðstoða hana við að losa Nýja-Sjáland við rasisma og ítrekaði ákvörðun sína um að nefna ekki árásarmanninn á nafn. 

Töluvert hefur verið um að byssueigendur á Nýja-Sjálandi hafi skilað inn vopnum sínum undanfarna daga en stefnt er að því að breyta löggjöf landsins varðandi byssueign.

Hefur ekki áhuga á almannatengslasýningu

Ardern segir að það sé ekki hægt að lýsa því með orðum að vita af fjölskyldu sem kom til Nýja-Sjálands í leit að skjóli og öryggi og hefði átt að vera örugg í landinu verða fyrir þessu. Vísaði hún þar til feðganna sem voru jarðsettir fyrr í dag. 

Hún var spurð af fréttamönnum hvort hún myndi taka á móti forstjóra Facebook, Mark Zuckerberg, ef hann ákvæði að koma í heimsókn til Nýja-Sjálands eftir gagnrýni hennar í garð samfélagsmiðla vegna streymis frá árásunum svaraði Ardern: „Ég hef engan áhuga á almannatengslasýningu.“  

Ardern segir að utanríkisráðherra landsins, Winston Peters, muni fara til Tyrklands til þess að svara ummælum forseta Tyrklands, Tayyip Erdoğan, í kjölfar árásanna. 

Erdoğan, sem er á fullu í kosningabaráttu fyrir flokk sinn, AK, sagði að Tyrkir myndu láta árásarmanninn gjalda fyrir það sem hann gerði ef nýsjálensk yfirvöld gerðu það ekki. Sveitarstjórnarkosningar fara fram í Tyrklandi 31. mars.

Hann sagði einnig að hver sá sem kæmi til Tyrklands með gagnrýni og harðorðar fullyrðingar í garð múslima yrðu sendir til baka í líkkistum líkt og afar þeirra í Gallipoli, orrustu í fyrri heimsstyrjöld þar sem hersveitir frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi reyndu án árangurs að hertaka tyrknesku sundin. 

29 enn á sjúkrahúsi

Enn eru 29 á sjúkrahúsi eftir árásina. Einn skurðlæknir sem gerði aðgerð á fjögurra ára gamalli stúlku sem er mjög alvarlega særð segist hafa ímyndað sér að hún væri ein af hans eigin börnum. 

Dr. Adib Khanafer, æðaskurðlæknir á sjúkrahúsinu í Christchurch, segir að hann hafi verið kallaður út til þess að gera aðgerð á stúlkunni síðdegis á föstudag. „Ég á fjögur börn. Það yngsta er sjö en það elsta 14 ára og ég ímyndaði mér að hún væri ein þeirra. Mér tókst að ljúka verkinu og leggja tilfinningar mínar til hliðar þangað til eftir á. Eftir að ég hafði gert aðgerðina,“ sagði hann.

„Ég er frá Englandi. Ég er múslimi og ég er arabi. Allir félagar mínir, sem eru Nýsjálendingar, hafa sent mér tölvupósta, skilaboð og blóm,“ bætti hann við.

Frétt Guardian

Frétt BBC

Zaid Mustafa særðist í árásinni en hann kom af sjúkrahúsinu …
Zaid Mustafa særðist í árásinni en hann kom af sjúkrahúsinu í hjólastól til þess að vera við útför föður og bróður síns, Khalid Mustafa og Hamza Mustafa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert