Handtekinn fyrir skrif um homma-munka

„Hópur munka kvartaði yfir því að vísunin til samkynhneigðar á …
„Hópur munka kvartaði yfir því að vísunin til samkynhneigðar á meðal munkanna væri móðgun við búddismann,“ sagði talsmaður lögreglu um handtöku rithöfundarins. Myndin er frá Chiang Mai í Taílandi. AFP

Rithöfundur á Srí Lanka hefur verið handtekinn fyrir að skrifa smásögu um samkynhneigða búddamunka og ákærður fyrir að að brjóta alþjóðleg mannréttindalög, samkvæmt yfirvöldum í eyríkinu.

Talsmenn tjáningarfrelsis í ríkinu eru ævareiðir vegna málsins og hafa fordæmt handtökuna, sem þeir segja tilefnislausa.

Rithöfundurinn, Shakthika Sathkumara, var handtekinn í gær og úrskurðaður í níu daga gæsluvarðhald eftir að munkar kvörtuðu yfir smásögu hans, sem vísar óbeint til samkynhneigðar innan munkastéttarinnar. Búddamunkar hafa töluverð áhrif á Srí Lanka, en þar býr 21 milljón manna.

„Hópur munka kvartaði yfir því að vísunin til samkynhneigðar á meðal munkanna væri móðgun við búddismann,“ sagði talsmaður lögreglu, en Sathkumara fékk smásögu sína birta í nokkrum tímaritum og birti hana einnig sjálfur á Facebook-síðu sinni.

Yfirvöld hafa ákært rithöfundinn fyrir að kynda undir hatri á milli trúarbragða með skrifum sínum, og vísa til ákvæðis þess efnis í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Srí Lanka er aðili að.

Búddamunkar eiga að vera skírlífir og einnig er löggjöf frá 1883 enn í gildi á Srí Lanka sem bannar samkynhneigð. Henni er þó sjaldan framfylgt, samkvæmt frétt AFP um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert