Kærði kynferðisbrot og var myrt

Konur í Bangladess mótmæla kynferðisbrotum í landinu með myndum af …
Konur í Bangladess mótmæla kynferðisbrotum í landinu með myndum af Nusrat Jahan Rafi. AFP

Mikil mótmæli brutust út í Bangladess í síðustu viku í kjölfar þess að ung kona var brennd lifandi samkvæmt skipun skólastjóra skólans sem hún stundaði nám við eftir að hún hafði sakað hann um kynferðislega áreitni samkvæmt frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að hin 19 ára Nusrat Jahan Rafi hafi verið blekkt til þess að fara upp á þak íslamska skólans sem hún stundaði nám við þar sem ráðist var á hana og þess krafist að hún drægi til baka kæruna sína á hendur skólastjóranum. Þegar hún neitaði því heltu árásarmennirnir yfir hana steinolíu og kveiktu í henni.

Lögreglan hefur handtekið 18 manns vegna dauða Rafi. Einn þeirra hafi sagt að skólastjórinn hafi fyrirskipað árásina. Lögreglan segir skólastjórann hafa skipað árásarmönnunum að þrýsta á Rafi að draga kæruna til baka en drepa hana ef hún neitaði.

Lögreglan segir að árásarmennirnir, þar á meðal þrír bekkjarfélagar Rafi, hafi bundið hana áður en kveikt hafi verið í henni. Ætlunin hafi verið að láta líta út fyrir að hún hefði svipt sig lífi. Upp komst um það þegar Rafi tókst að komast niður af þakinu þar sem eldurinn brenndi sundur böndin sem áttu að halda henni.

Rafi hlaut brunasár á 80% líkama síns en hún lést á sjúkrahúsi 10. apríl. Áður en hún lést tók hún upp myndband þar sem hún ítrekaði ásakanir sínar í garð skólastjórans um að hann hefði snert sig með kynferðislegum hætti. Nafngreindi hún ennfremur nokkra af árásarmönnunum.

Stjórnvöld hafa verið gagnrýnd harðlega vegna málsins fyrir að taka ekki harðar á kynferðisbrotum í Bangladess. Gagnrýnin hefur ekki síst beinst að lögreglunni sem sögð er hafa ekki tekið kæru Rafis mjög alvarlega. Lögreglan hafi ekkert gert í málinu.

Forsætisráðherra Bangladess, Sheikh Hasina, hefur heitið því að árásarmennirnir verði allir sóttir til saka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert