Ódæðið á Tenerife vel skipulagt

Maðurinn streittist á móti við handtöku.
Maðurinn streittist á móti við handtöku. Ljósmynd/Twitter

Spænska lögreglan telur að þýskur karlmaður sem er grunaður um að hafa myrt fyrrverandi eiginkonu sína og son á eyjunni Tenerife hafi skipulagt ódæðið vel.

Hinn grunaði, sem er kallaður Thomas H. í erlendum miðlum og er 43 ára, hefur verið yfirheyrður af lögreglu í bænum Arona á Tenerife.

Lík konunnar og tíu ára sonar hennar fundust í helli á miðvikudag rétt fyrir utan bæinn Adeje á suðvesturhluta eyjunnar. Fimm ára syni fólksins tókst að flýja úr hellinum.

„Það bendir allt til þess að glæpurinn hafi verið vel skipulagður,“ sagði José Miguel Rodriguez Fraga, bæjarstjóri Adeje. Hann bætti því við að ef ekki hefði verið fyrir fimm ára drenginn væri líklega ekki enn búið að finna líkin.

Fólkið leit út fyrir að hafa verið beitt ofbeldi áður en það lést.

Kynbundnu ofbeldi mótmælt

Hollensk kona, Annelies, var ráðin sem túlkur fyrir unga drenginn. Hún sagði að faðir hans hefði leigt bíl og ætlaði að bjóða fjölskyldunni í stutta skoðunarferð út fyrir bæinn.

Annelies hefur séð um drenginn síðan en hann veit ekki að móðir hans og bróðir létust.

Íbúar í Adeje minntust fórnarlambanna með einnar mínútu þögn í gær og héldu á borðum þar sem kynbundnu ofbeldi var mótmælt.

Samkvæmt spænskum fréttamiðlum reyndi Thomas H. að streitast á móti við handtöku og neitaði því að vita eitthvað um afdrif fyrrverandi konu sinnar og eldri sonar. 

Samkvæmt yngri syninum ók faðirinn með þeim að fjöllum rétt utan við bæinn og lagði við hellasvæði. Þar sagðist hann hafa falið páskagjafir. Drengurinn varð vitni að því þegar faðirinn réðst á konuna og hann sá móður sína liggjandi alblóðuga á jörðinni.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert