Gunnar úrskurðaður í fjórar vikur

Héraðsdómur Austur-Finnmerkur í Vadsø.
Héraðsdómur Austur-Finnmerkur í Vadsø. Ljósmynd/Andrea Dahl/iFinnmark

Gunnar Jóhann Gunnarsson, sem grunaður er um að hafa skotið Gísla hálfbróður sinn til bana í Mehamn um helgina, var rétt í þessu úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Vadsø. Gunnar kvaðst samþykkur úrskurðinum þegar héraðsdómari innti hann álits.

Þinghald hófst klukkan 19:00 að norskum tíma fyrir héraðsdómi, það er 17:00 á Íslandi, og var Gunnar fyrri maður fyrir dómarann en annar maður, sem talinn er hafa verið samverkamaður hans við ódæðið þegar Gísla Þór Þórarinssyni var ráðinn bani í Mehamn í Finnmörku aðfaranótt laugardags, kom fyrir dóminn hálftíma síðar.

Brást ókvæða við

Norskir dómstólar banna að greint sé frá efnisatriðum sem fram koma við gæsluvarðhaldsþinghöld en almennt er þó greint frá afstöðu sakborninga til úrskurðarorðs og hafa hvort tveggja norska ríkisútvarpið NRK og Dagbladet sagt frá því að Gunnar lýsti sig samþykkan fjögurra vikna gæsluvarðhaldi með bréfa- og heimsóknabanni eins og einangrun heitir eftir sakramentinu í norskum rétti.

Samkvæmt því sem Trym Mogen, blaðamaður Dagbladet, segir mbl.is frá rétt í þessu stendur þinghald í máli hins mannsins, 32 ára gamals meints samverkamanns Gunnars, enn yfir. Sá neitar staðfastlega að hafa komið nálægt málinu og brást ókvæða við einnar viku gæsluvarðhaldskröfu lögreglu.

Ekki hefur auðnast að ná sambandi við Vidar Zahl Arntzen, verjanda Gunnars, í kvöld þrátt fyrir tilraunir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert