Sektaðir á staðnum fyrir áreitni

A
A AFP

Alls hafa 447 einstaklingar verið sektaðir í Frakklandi undanfarna átta mánuði fyrir áreitni gagnvart konum á götum úti. Jafnréttisráðherra Frakklands, Marlène Schiappa, segir að þetta sýni þörfina á slíkum lögum en hver sekt er að hámarki 750 evrur, sem svarar til rúmlega 100 þúsund króna.

Lögin tóku gildi í ágúst í fyrra en sá fyrsti var sektaður í september fyrir að slá konu á rassinn í strætisvagni og kalla til hennar niðrandi ummæli.

Schiappa fjallaði um lögin nýverið í franska þinginu og sagði að tölurnar væru ekkert til þess að skammast sín fyrir. Ljóst sé að meira þurfi að gera. Til að mynda hafi Twitter ekki samþykkt að veita upplýsingar um þá sem viðhafa niðrandi ummæli um konur og hafi ekki viljað loka á aðgang þeirra sem gerðust sekir um slíkt ofbeldi.

Samkvæmt refsiramma laganna nema sektirnar frá 90 evrum upp í 750 evrur og má sekta þá brotlegu á staðnum. Ástæðan fyrir því að heimilt er að innheimta sektina strax er sú að forða konum frá erfiðu og löngu kæruferli.

Lagasetningin hafði verið í undirbúningi í langan tíma en lögin tóku gildi um það bil mánuði eftir að maður réðst á konu þar sem hún sat á kaffihúsi og myndskeið af atvikinu fór víða og vakti mikla reiði meðal fólks.

Í rannsókn sem var birt snemma árs í fyrra kemur fram að ein af hverjum átta konum í Frakklandi hefur verið nauðgað að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Eins að þuklað hefur verið á 43% kvenna án þeirra samþykkis. Rannsóknin var unnin af stofnun Jean Jaurès í París.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert