Lögreglumaður sakfelldur fyrir morð

Íbúar af sómalsk-amerískum ættum höfðu áhyggjur af því að Noor …
Íbúar af sómalsk-amerískum ættum höfðu áhyggjur af því að Noor hlyti ekki réttláta meðferð. AFP

Kviðdómarar í Minneapolis í Bandaríkjunum hafa dæmt lögreglumanninn Mohamed Noor sekan fyrir morðið á Justine Ruszczyk, en Moor skaut Ruszczyk þar sem hún nálgaðist lögreglubílinn eftir að hafa tilkynnt um mögulegt kynferðisbrot.

Samkvæmt umfjöllun New York Times um málið er afar sjaldgæft að lögreglumenn séu fundnir sekir í málum sem þessum, en málið vakti mikla reiði sem teygði sig alla leið til Ástralíu þar sem Ruszczyk hafði búið stærstan hluta ævi sinnar.

Atvikið leiddi til róttækra breytinga hjá lögregluyfirvöldum í Minneapolis og vakti dómshaldið mikla athygli íbúa Minneapolis af sómölsk-amerískum ættum, sem höfðu miklar áhyggur af því að Noor fengi ekki réttláta málsmeðferð.

Mikil leynd hefur ríkt yfir ástæðum þess að Noor hleypti af skoti umrætt kvöld, en hann neitaði að tjá sig við lögreglu á meðan málið var í rannsókn. Fyrir dómi sagðist hann hins vegar hafa óttast um líf sitt þegar hann sá manneskju nálgast lögreglubifreiðina í myrkrinu og hafi tekið augnabliksákvörðun með fyrrgreindum afleiðingum.

Nálgaðist lögreglubílinn í náttfötunum

Ruszczyk var 40 ára gömul og starfaði sem jógakennari. Hún hafði hringt tvisvar í neyðarlínuna þetta kvöld til að tilkynna um það sem hún hélt að væri kynferðisbrot í sundinu aftan við heimili hennar. Þegar lögregla kom á staðinn nálgaðist hún lögreglubílinn á náttfötunum og með síma í hönd. Noor bar það fyrir sig að hann hafi ekki getað vitað hvort manneskjan sem nálgaðist bílinn væri vopnuð.

Verjandi Noor viðurkenndi að engin ógn hefði stafað af Ruszczyk, en sagði málið harmleik en ekki glæp.

Ungir, þeldökkir piltar oftar fórnarlömb lögreglu

Algengt er að lögreglumenn í Bandaríkjunum hleypi af skotum að ósekju, en fáir eru saksóttir vegna slíks og enn færri dæmdir sekir. Það er því í frásögu færandi að Noor hafi verið fundinn sekur. Hins vegar eru fórnarlömb lögreglunnar í málum sem þessum oftar en ekki ungir, þeldökkir karlmenn, en ekki hvítar konur á miðjum aldri.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert