Góðar lífslíkur áfall fyrir útfararstofu

Dignity sá „aðeins“ um 19.200 jarðarfarir fyrstu 13 vikur ársins …
Dignity sá „aðeins“ um 19.200 jarðarfarir fyrstu 13 vikur ársins en í fyrra voru þær fleiri, um 21.400. Ljósmynd/Wikipedia.org

Dauðsföllum fækkaði um 12% í Englandi á fyrsta ársfjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Það veldur útfararstofum þungum búsifjum, enda viðskiptin af þeim mun skornari skammti.

Útfararstofan Dignity sendi frá sér afkomuviðvörun á dögunum í kjölfar fjölda dauðsfalla sem reyndist mjög undir væntingum. Heildartekjur fyrirtækisins námu á ársfjórðungnum sem leið 81.1 milljón punda, jafnvirði 13 milljarða króna, miðað við ríflega 96 milljónir punda á sama tíma í fyrra.

Dignity sá „aðeins“ um 19.200 jarðarfarir fyrstu 13 vikur ársins en í fyrra voru þær fleiri, um 21.400. Fyrirtækið bendir hluthöfum þó vongott á opinberar tölfræðihorfur sem segja til um að dauðsföllum komi til með að fjölga árlega um 700.000 í Englandi fram til ársins 2040.

Fyrirtækið sá sæng sína upp reidda í byrjun árs og tók að bjóða upp á „einfaldan pakka“, sem var um fjórðungi ódýrari. Má velta fyrir sér hvar var gefinn afsláttur í þjónustunni. Fyrirtækið berst um hvern látinn við helsta keppinaut sinn The Co-operative Funeralcare. Samkeppniseftirlitið þar eystra hóf rannsókn á verðlagningu fyrirtækjanna í mars og meðferð þeirra á viðkvæmum viðskiptavinum.

SKY News segir frá þessari þróun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert