Flugmenn þrýstu á breytingar síðasta haust

Breytingarnar sem flugmenn vildu láta gera strax í haust, hefðu …
Breytingarnar sem flugmenn vildu láta gera strax í haust, hefðu líklega krafist tímabundinnar kyrrsetningar Boeing 737 Max 8-vélanna. AFP

Flugmenn bandaríska flugfélagsins American Airlines boðuðu forsvarsmenn Boeing-flugvélaframleiðandans til fundar eftir að farþegaþota indónesíska flugfélagsins Lion Air hrapaði úti fyrir strönd Jövu með þeim afleiðingum að 189 manns létust. Flugvélin var af gerðinni 737 Max 8 og vildu flugmennirnir með fundinum þrýsta á Boeing að gera breytingar sem bæta myndu öryggi vélanna.

New York Times og CBS-sjónvarpsstöðin greina frá þessu og segja breytingarnar sem flugmennirnir vildu sjá gerðar hafa krafist tímabundinnar kyrrsetningar Max-vélanna, sem voru söluhæstu vélar Boeing. Krafa flugmannanna kemur skýrt fram á hljóðupptöku sem fjölmiðlarnir eru með af fundi flugmannanna og forsvarsmanna Boeing.

Fundurinn átti sér stað 27. nóvember á síðasta ári, en það var ekki fyrr en eftir að vél Ethiopian Airlines, sömu gerðar, hrapaði í mars á þessu ári með þeim afleiðingum að 157 manns fórust sem kastljósið beindist aftur að MCAS-stýribúnaði Max-vélanna og krafan um kyrrsetningu varð of hávær til að hægt væri að hunsa hana.

Hljóðupptakan af fundinum sýnir hins vegar að flugmenn höfðu áhyggjur af öryggi vélanna strax í kjölfar Lion Air-flugslyssins. Var það ekki hvað síst MCAS-stýribúnaðurinn sem olli flugmönnunum áhyggjum, en sá búnaður  er talinn hafa átt sök á slysinu í báðum tilfellum.

„Enginn hefur enn komist að þeirri niðurstöðu að eina ástæða þessa hafi verið virkni flugvélarinnar,“ sagði Mike Sinnett varaforstjóri Boeing á fundinum eftir hrap Lion Air.

„Það versta sem getur komið fyrir er harmleikur eins og þessi, en enn verra væri þó ef annar slíkur yrði,“ sagði Sinnet síðar á fundum. Fjórum mánuðum síðar hrapaði vél Ethiopian Airlines.

Flugmennirnir kvörtuðu hins vegar yfir að fá ekki nægar upplýsingar um MCAS-stýrikerfið, sem var nýtt af nálinni og fyrst tekið í notkun með Boeing 737 Max 8-vélunum.

„Þessir gaurar vissu ekki einu sinni að fjandans kerfið var í vélinni, né heldur vissi það nokkur annar,“ segir AFP Mike Michaelis, yfirmann flugöryggis hjá stéttarfélagi flugmannanna, hafa sagt.

Boeing bætti leiðbeiningar til flugmanna í kjölfar Lion Air-flugsslyssins, en samkvæmt bréfi, sem AFP hefur undir höndum, segir Michaelis leiðbeiningarnar ekki vera nægilegar til að flugmenn myndu vita hvernig þeir ættu að bregðast við bilunum á MCAS-kerfinu.

New York Times segir Michaelis hafa beðið forsvarsmenn Boeing að gera breytingu á hugbúnaði stýrikerfisins, en að slíkt hefði líklega falið í sér tímabundna kyrrsetningu. Boeing er búið að vera að vinna að uppfærslu á hugbúnaðinum, sem fyrirtækið vonast til að lagi kerfið og verði fljótt samþykkt af eftirlitsaðilum. Óvíst er hins vegar hvort flugvélarnar, sem hafa verið kyrrsettar frá því í mars, verða komnar í loft á ný fyrir sumarbyrjun.

Greint hefur verið frá því áður að bandaríska flugmálastofnunin (FAA) vann ekki sjálf úttekt á öryggi Max-vélanna. Búast má því við að Daniel Elwell, starfandi forstjóri FAA, verði látinn svara mörgum erfiðum spurningum er hann kemur fyrir þingnefnd í dag vegna málsins, en þingmenn hafa við fyrri yfirheyrslur gagnrýnt FAA fyrir of náið samstarf við Boeing.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert