Borgarstjóri New York vill verða forseti

„Það þarf að stöðva Donald Trump. Ég er Bill de …
„Það þarf að stöðva Donald Trump. Ég er Bill de Blasio og ég býð mig fram til forseta,“ segir borgarstjóri New York sem tilkynnti í morgun um framboð sitt í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. AFP

Bill de Blasio, borgarstjóri í New York, ætlar að sækjast eftir útnefningu demókrata fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Frá þessu greindi hann í morgun.

„Það þarf að stöðva Donald Trump. Ég er Bill de Blasio og ég býð mig fram til forseta þar sem það er tími til kominn til að setja málefni verkafólks í forgang,“ segir De Blasio í myndskeiði þar sem hann tilkynnir framboð sitt.

De Blasio bætist í hóp 22 sem hafa þegar sóst eftir forsetatilnefningu Demókrataflokksins og því stefnir í langfjölmennasta forval í sögu flokksins.

Í framboðsmyndskeiðinu fer De Blasio yfir nokkur mál sem hann hefur unnið að sem borgarstjóri, svo sem hærri lágmarkslaun, bætta heilbrigðisþjónustu og að greiða fólki laun í veikindum.

De Blasio segist sannfærður um að hann eigi besta möguleika af frambjóðendum Demókrataflokksins til að steypa Trump af stóli. De Blasio segir fjármagn Bandaríkjanna vera í röngum höndum og því vilji hann breyta.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert