Hafði aldrei upplifað annan eins sársauka

Vilhjálmur Bretaprins. Mannlegur eins og við hin.
Vilhjálmur Bretaprins. Mannlegur eins og við hin. AFP

Vilhjálmur Bretaprins segir að hann hafi aldrei upplifað annan eins sársauka og þegar móðir hans Díana prinsessa lést. Þetta segir hann í nýrri heimildarmynd BBC þar sem fjallað er um andlega heilsu fólks. 

Hann sagði að breska stífnin eigi sinn stað og sína stund þegar í harðbakkan slær, en fólk verði einnig að geta slakað örlítið á og „verðum að geta talað um tilfinningar okkar því við erum ekki vélmenni.“

Hann sagði einnig frá því að hann hafi fundið sterkt fyrir dauðanum þegar hann starfaði sem þyrluflugmaður í sjúkraflutningum. Þetta kemur fram á vef BBC.

Vilhjálmur sagði ennfremur frá því að þegar móðir hans lést í bílslysi árið 1997, þá hefði hann skilið hvernig öðrum leið sem höfðu misst náin ástvin.

„Ég hef hugsað mikið um þetta, og ég er að reyna að skilja hvers vegna mér líður svona, en ég tel að þegar þú missir ástvin svona ungur, í raun hvenær sem er, en sérstaklega þegar þú ert svo ungur, þá tengi ég mjög sterkt við þetta, að þú finnir fyrir óbærilegum sársauka.“

Hann sagði að þegar hann starfaði í sjúkraflutningum þá hafi menn verið afar opnir í samskiptum. Lífsreynslan hafi verið afar hrá og tilfinningaþrungin „þegar þú átt í samskiptum við fjölskyldur sem hafa fengið verstu fréttir sem þær gátu fengið á venjulegum degi.“

„Þessar hráu tilfiningar [...] ég fann fyrir hvernig þetta gerjaðist innan í mér og mér leið eins og þetta myndi taka sinn toll og verða að raunverulegu vandamáli. Ég þurfti að ræða um þessi mál.“

Heimildarmyndin verður frumsýnd á morgun. Vilhjálmur ræðir m.a. við knattspyrnumennina Peter Crouch og Danny Rose, fyrrverandi leikmennina Thierry Henry og Jermaine Jenas, og einnig við Gareth Southgate landsliðsþjálfara karlaliðs Englands í knattspyrnu. Þeir eiga allir sammerkt að hafa glímt við andlega vanlíðan og álag á sínum ferli. 

mbl.is