Rannsóknarblaðamaðurinn laus allra mála

Golunov verður látinn laus í dag og ákærur gegn honum …
Golunov verður látinn laus í dag og ákærur gegn honum felldar niður. AFP

Rannsóknarblaðamaðurinn Ivan Golunov hefur verið látinn laus og ákærur gagnvart honum felldar niður eftir hávær mótmæli almennings og fjölmiðla í Rússlandi, en hann var handtekinn vegna meintrar fíkniefnasölu.

Lögmenn Golunov sögðu fíkniefnunum hafa verið komið fyrir á heimili hans af rússneskum yfirvöldum og fylktu rússneskir fjölmiðlar, sem og Evrópusamtök blaðamanna (EFJ), sér um kollega sinn í kjölfar handtökunnar.

Innanríkisráðherra Rússlands, Vladimir Kolokoltsev, segir sekt Gulonov ekki hafa verið sannaða og að tveimur lögregluþjónum sem að málinu komu hafi verið vikið úr starfi.

Ung kona mótmælir handtöku Golunov.
Ung kona mótmælir handtöku Golunov. AFP

Ákvörðunin um lausn Golunov hafi verið tekin í kjölfar réttarlæknisfræðilegra, líffræðilegra og erfðafræðilegra rannsókna, auk rannsóknar á fingraförum.

Golunov er blaðamaður lettneska vefmiðilsins Meduza, en hann var handtekinn í Moskvu síðastliðinn fimmtudag og að sögn fundust fíkniefni í bakpoka hans. Við húsleit á heimili hans fannst svo mikið magn fíkniefna og vigta sem bentu til sölustarfsemi, en eins og áður segir segja lögmenn Golunov að efnunum hafi verið komið fyrir á heimili hans af yfirvöldum.

mbl.is