Rannsóknarblaðamaður handtekinn fyrir sölu fíkniefna

Rússneski rannsóknarblaðamaðurinn Ivan Golunov var handtekinn á fimmtudag og var ...
Rússneski rannsóknarblaðamaðurinn Ivan Golunov var handtekinn á fimmtudag og var í dag ákærður fyrir að reyna að framleiða, selja eða dreifa fíkniefnum. Lögfræðingar Golunov fullyrða að fíkniefnunum hafi verið komið fyrir hjá honum en rússnesk yfirvöld þverneita þeirri ásökun. AFP

Ivan Golunov, rússneskur rannsóknarblaðamaður, hefur verið handtekinn og ákærður fyrir að reyna að selja fíkniefni.

Golunov er blaðamaður á lettneska vefmiðlinum Meduza en var handtekinn í Moskvu á fimmtudag, en hann þurfti á aðhlynningu á sjúkrahúsi að halda eftir handtökuna. Rússneski miðillinn Breaking Mash hefur birt myndskeið af Golunov eftir að hann var handtekinn þar sem hann lyftir upp bol sínum og sýnir það sem virðist vera brunasár á baki. 

Lögfræðingar Golunov fullyrða að fíkniefnunum hafi verið komið fyrir hjá honum en rússnesk yfirvöld þverneita þeirri ásökun. Fram kemur í yfirlkýsingu frá Meduza að Golunov hafi verið handtekinn sökum starfs síns og að honum hafi borist hótanir síðustu mánuði vegna fréttar sem hann var með í vinnslu. „Við erum sannfærð um sakleysi Golunov,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

Golunov var á leið á fund með öðrum blaðamönnum á fimmtudag þegar hann var stöðvaður af lögreglumönnum sem leituðu á honum. Við letina fundu þeir fíkniefnið mephedrone, sem er skylt amfetamíni. Við húsleit hjá honum komu fleiri fíkniefni í ljós auk vigtar sem þótti gefa til kynna að Golunov væri að selja fíkniefni.

Rannsóknarblaðamaðurinn hefur verið ákærður fyrir að reyna að framleiða, selja eða dreifa fíkniefnum. Dómari neitaði beiðni lögreglu um gæsluvarðhald en Golunov var hnepptur í stofufangelsi eftir fyrirtöku málsins í dómsal.  

Lögreglan birti myndir en fjarlægði svo

Rússneska lögreglan birti myndir sem sýna fíkniefni í íbúð Golunov en þær hafa verið fjarlægðar, að sögn Olgu Ivshina, fréttaritara BBC í Rússlandi. Hún segir að lögreglan hafi viðurkennt að flestar myndanna hafi ekki einu sinni verið teknar á heimili Golunov heldur tengist þær annarri rannsókn.

Golunov hefur fjallað um spillingamál háttsettra kaupsýslumanna og stjórnmálaelítunnar í Rússlandi. Golunov er síður en svo fyrsti blaðamaðurinn sem er handtekinn og ákærður fyrir fíkniefnasölu eða álíka ákæra. Rússland er í 83. sæti af 100 löndum á lista Freedom House yfir fjölmiðlafrelsi. Mótmæli hafa brotist út í Moskvu og Sankti Pétursborg í kjölfar handtöku Golunov. Tugir hafa verið handteknir, flestir blaðamenn.

Mótmæli hafa brotist út í Moskvu og Sankti Pétursborg í ...
Mótmæli hafa brotist út í Moskvu og Sankti Pétursborg í kjölfar handtöku Golunov. AFPmbl.is