Enn eitt Brexit-frumvarpið fellt

Útganga Breta úr Evrópusambandinu hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig.
Útganga Breta úr Evrópusambandinu hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig. AFP

Þverpólitískt frumvarp um að fela breska þinginu að taka stjórn á málefnum útgöngu Breta úr ESB hafi samningar um útgöngu ekki náðst 25. júní, var fellt með ellefu atkvæðum á breska þinginu í dag. 298 þingmenn kusu gegn en 309 með. Guardian greinir frá.

Frummælandi var Keir Starmer, þingmaður Verkamannaflokksins og skuggaráðherra Brexit-mála, en frumvarpið naut stuðnings þingmanna úr öllum stóru flokkunum á þingi. Í umræðum í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar sagði Starmer að þingmenn yrðu að grípa tækifærið til að afstýra samningslausri útgöngu. Sagði hann slíkt nauðsynlegt vegna yfirlýsinga sumra leiðtogaefna Íhaldsflokksins, svo sem Boris Johnson og Dominic Raab, sem hafa sagt að Bretar muni yfirgefa Evrópusambandið 31. október hvernig sem samningaviðræður þróast. 

Leiðtogar Evrópusambandsins hafa enda ítrekað lýst því yfir að fyrirliggjandi útgöngusamningur, sem breska þingið hefur margsinnis hafnað, sé ekki til endurskoðunar þó svo að flestir frambjóðendur til forsætis í Íhaldsflokknum heiti því að þeim muni takast að ná betri útgöngusamningi við sambandið.

Steve Barclay, ráðherra útgöngu, sagði frumvarpið vera feigðarflan. Því væri ætlað að færa þinginu umtalsverð völd án þess að nokkurs konar útgöngustefna fylgdi með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert