Karlkyns ungum verður áfram slátrað

Hanar eru flokkaðir frá hænunum strax eftir að eggin klekjast …
Hanar eru flokkaðir frá hænunum strax eftir að eggin klekjast og ýmist kæfðir með gasi eða settir í kvarnir. AFP

Hænsnabúum í Þýskalandi verður áfram heimilt að sláta karlkyns hænuungum í massavís, allavega þar til tækni til þess að greina kyn unga áður en þeir klekjast verður aðgengilegri, samkvæmt niðurstöðu æðsta dómstóls landsins í Leipzig í dag.

Talið er að yfir 45 milljón karlkyns ungum sé slátrað í Þýskalandi á hverju ári, þar sem þeir vaxa hægar en kvenkyns ungar og henta verr til kjötframleiðslu, auk þess sem þeir eru með öllu gagnslausir er kemur að eggjaframleiðslu.

Karlkyns ungar eru því flokkaðir frá systrum sínum strax eftir að eggin klekjast og ýmist kæfðir með gasi eða settir í kvarnir, samkvæmt því sem fram kemur í frétt BBC um málið.

Landbúnaðarráðherra Þýskalands, Julia Klöckner, hefur tekið til varna fyrir karlkyns ungana og sagt slátrun þeirra „siðferðilega óásættanlega“, athæfið beri að banna.

Frá mótmælum Peta í Leipzig í dag. Mótmælendur fleygja plast-ungum …
Frá mótmælum Peta í Leipzig í dag. Mótmælendur fleygja plast-ungum í kvörn. AFP

Þetta mál hefur verið til meðferðar í þýska réttarkerfinu allt frá árinu 2013, er sambandsríkið Norðurrín-Vestfalía lagði blátt bann við því að karlkyns ungar yrðu drepnir strax eftir að þeir klekjast, en í dýravelferðarlöggjöf Þýskalands segir að ekki megi valda húsdýrum skaða án þess að fyrir því séu haldgóðar ástæður.

Tvö hænsnabú í sambandsrríkinu fóru í mál út af þessari ákvörðun og í kjölfarið kvað undirréttur upp þá ákvörðun að matvælaframleiðsla væri nægilega haldgóð ástæða til þess að réttlæta drápin.

Niðurstaða alríkisdómstólsins í Leipzig í dag felur þó í sér að þessi iðja verður ekki bönnuð í núverandi mynd fyrr en að tækni til þess að greina kyn unga í eggjum áður en þeir klekjast verður orðin útbreidd og aðgengileg.

Hægt er að greina kyn ungans í egginu með sérstakri …
Hægt er að greina kyn ungans í egginu með sérstakri tækni, sem er þó ekki orðin útbreidd. Það er verið að gera hér í þessar safnmynd AFP, sem tekin er á rannsóknastofu læknadeildarinnar við Tækniháskólann í Dresden. AFP

Talsmaður stjórnmálaafls Græningja í Þýskalandi, Friedrich Ostendorff, sagði að hann væri „undrandi og vonsvikinn“ vegna ákvörðunar dómstólsins í Leipzig.

Lausnin virðist senn nálgast

Baráttufólk fyrir dýravelferð víða um heim hefur lengi barist fyrir því að slátrun nýklaktra unga verði hætt. Vísindamenn í mörgum löndum hafa svo unnið að því að þróa aðferðir til þess að greina kyn unga áður en þeir klekjast og það hefur tekist.

Lítið hæsnabú í Þýskalandi setti í fyrra svokölluð „drápslaus“ egg á markað, en fyrirtækið hefur samkvæmt frétt BBC fengið milljónir evra í nýsköpunarstyrk frá þýskum stjórnvöldum til þess að þróa tækni til þess að kyngreina ungana áður en eggin klekjast. Frjóvguðu eggin sem eru flokkuð frá eru svo nýtt í framleiðslu gæludýrafóðurs.

Drápslausu eggin, sem seld eru undir merkinu Seleggt, fást nú í yfir 200 búðum í Þýskalandi og vonast er eftir því að frekari útbreiðsla og þróun þessarar tækni verði til þess að drápunum linni að lokum.

Baráttufólk fyrir dýravelferð frá samtökunum Peta fyrir utan dómshúsið í …
Baráttufólk fyrir dýravelferð frá samtökunum Peta fyrir utan dómshúsið í Leipzig í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert