Rak tvo yfirmenn í lögreglunni

Ivan Golunov rannsóknarblaðamaður hefur gagnrýnt stjórnvöld í Rússlandi.
Ivan Golunov rannsóknarblaðamaður hefur gagnrýnt stjórnvöld í Rússlandi. AFP

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, rak tvo yfirmenn í lögreglunni fyrir að handtaka rann­sókn­ar­blaðamanninn Ivan Golunov sem var sakaður um fíkniefnasölu. Fjölmargir mótmæltu handtöku blaðamannsins og sökuðu lögregluna um að hafa plantað fíkniefnunum á heimili hans.

Skömmu seinna viðurkenndi lögreglan að hafa falsað sönnunargögn í málinu það er að segja að hafa birt myndir af fíkniefnum sem fundust ekki á heimili hans. 

Talið er að um 500 manns hafi verið handteknir á mótmælum í gær í Moskvu. Þeirra á meðal var Al­ex­ei Navalny leiðtogi rúss­nesku stjórn­ar­and­stöðunn­ar. Lögreglan var sökuð um að ganga hart fram gegn mótmælendum.     

Vladimir Kolokoltsev, innanríkisráðherra Rússlands, greindi frá því að mennirnir hefðu verið reknir að beiðni Putin í gær vegna skorts á sönnunargögnum í máli Golunov. Báðir lögreglumennirnir voru yfirmenn á sínum lögreglustöðvum, annar var yfir fíkniefnadeildinni og hinn var yfirmaður á lögreglustöðinni í vesturhluta Moskvu. Golunov hefur verið sleppt úr haldi lögreglunnar. 

Kolokoltsev sagði jafnframt að allir lögreglumennirnir sem komu að rannsókn málsins hafi verið vikið frá störfum á meðan rannsókn færi fram. Atvikið hefur vakið upp ótal spurningar um vinnubrögð lögreglunnar.  

Golunov er blaðamaður á lett­neska vef­miðlin­um Med­uza en var hand­tek­inn í Moskvu á fimmtu­dag í síðustu viku, en hann þurfti á aðhlynn­ingu á sjúkra­húsi að halda eft­ir hand­tök­una. Hann hefur gagnrýnt rússnesk stjórnvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert