Buðu sig aldrei fram eins og hetjur

Oleksíj Ananenko settist niður með blaðamönnum AFP í Úkraínu.
Oleksíj Ananenko settist niður með blaðamönnum AFP í Úkraínu. AFP

„Mér leið aldrei eins og hetju. Ég var að sinna mínu starfi,“ segir Oleksíj Ananenko, einn kafaranna þriggja sem óðu í gegnum vatnsflaum í Tsjernóbíl-kjarnorkuverinu árið 1986 til þess að tæma vatnstank sem var staðsettur þremur metrum fyrir neðan brennandi kjarnakljúfinn.

Í þáttaseríunni Chernobyl, sem notið hefur gríðarlegra vinsælda og hlotið nær einróma lof gagnrýnenda undanfarnar vikur, eru Ananenkó og hinir kafararnir tveir, Valeríj Bespalov og Boris Baranov, sýndir sem miklar hetjur sem bjóða sig fram til þess að vaða geislavirkt vatn inni í kjarnorkuverinu í því skyni að bjarga milljónum mannslífa.

Í viðtali við AFP fréttastofuna, í látlausri eins svefnherbergis íbúð sinni í úthverfi Kænugarðs, segir Ananenko að það sem hann og hinir kafararnir gerðu hafi ekki verið hetjudáð.

Hann segir að þrátt fyrir að kjarnorkusérfræðingar hafi óttast að mögulega yrði önnur sprenging ef kjarnorkueldsneytið næði að bræða sér leið niður að vatnstanknum, hafi þeim ekki verið ljóst á þeim tíma hve miklu tjóni það gæti valdið.

Ananenko hér í íbúð sinni með gamla mynd af sjálfum …
Ananenko hér í íbúð sinni með gamla mynd af sjálfum sér. AFP

Hið minnsta var aldrei talað um milljónir mannslífa – og mennirnir þrír buðu sig ekki fram heldur fylgdu bara skipunum, eins og þeir voru vanir að gera. Þeir voru ekki einu sinni upplýstir um að verkefnið gæti reynst afar hættulegt.

„Mér var skipað að fara þangað, svo ég fór,“ segir Ananenko, sem er leikinn af íslenska leikaranum Baltasar Breka Samper í þáttunum. Hann segist aldrei hafa verið hræddur á meðan verkinu stóð.

„Við fórum hraðar en þetta“

Atriðið þar sem kafararnir þrír halda í þessa hættuför um kjallara kjarnorkuversins er afar dramatískt í þáttunum og Ananenko horfði á það ásamt blaðamönnum AFP. Kafarinn sagði ýmislegt fært í stílinn og nefnir að mennirnir hafi einungis verið í einföldum köfunarbúnaði og með öndunargrímur, en ekki súrefnistanka eins og sýnt er í þáttunum.

Með því að notast við vasaljóst í kolniðamyrkri tókst köfurunum þremur fljótt að finna kranana sem þeir þurftu að skrúfa frá til þess að tæma vatnstankinn. „Ég heyrði strax hljóð sem gaf til kynna að vatnið væri að streyma út. Það var magnað,“ rifjar Ananeko upp.

Kjarnorkuverið og hlífðarskjöldurinn sem byggður hefur verið yfir kjarnakljúf 4. …
Kjarnorkuverið og hlífðarskjöldurinn sem byggður hefur verið yfir kjarnakljúf 4. Mynd tekin fyrr í þessum mánuði. AFP

Í þáttunum tók það ansi langan tíma og mikið bras að finna kranann sem þurfti að opna fyrir, en samkvæmt frásögn Ananenko fóru kafararnir hratt yfir og verkið tók ekki langan tíma.

„Við löbbuðum hraðar en þetta. Af hverju? Af því að ef þú fórst hægt, hefði skammturinn [af geislavirkninni úr vatninu] orðið stærri,“ segir Ananenko, sem var með tvo geislamæla á sér en man ekki hversu mikla geislun þeir námu að hann hefði komist í snertingu við.

„Það þýðir að það var ekki mjög mikið,“ segir hann.

Ananenko er orðinn 59 ára gamall og væri enn við ágæta heilsu ef ekki væri fyrir alvarlegt bílslys sem hann lenti í árið 2017, en allt þangað til þá starfaði hann í kjarnorkuiðnaðinum. Hann veiktist ekkert eftir snertingu við geislavirka vatnið.

Kafarinn Bespalov er einnig enn á lífi og býr í Kænugarði eins og Ananenko, en Baranov lést árið 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert