Lýsa hrottafengnu ofbeldi hersins

AFP

Vitni að ofbeldisfullum aðgerðum súdanska hersins gegn friðsælum mótmelendum í höfuðborginni Khartoum í síðustu viku, sem leiddu til dauða 100 manns, lýsa hrottafengnu ofbeldi hersins í viðtali við fréttamann BBC í Afríku.

Yfirmenn súdanska hersins hafa viðurkennt að hafa fyrirskipað aðgerðirnar, en hundruð hermanna réðust inn í hóp mótmælenda í höfuðborginni sem þar höfðu mótmælt herstjórninni með friðsælum hætti vikum saman.

Að sögn fréttamanns BBC, Fergal Keane, hafði herinn aðeins eitt markmið: að binda enda á uppreisnina með því að leika stuðningsmenn hennar illa.

Mótmælendur og vitni hafa lýst því hvernig herinn hafi hafið skothríð og fylgt henni eftir með barsmíðum með kylfum og svipum, sem olli því að mótmælendur gátu ekki fært særða félaga sína í skjól. Þá hafa vitni lýst því hvernig hermenn hafi nauðgað særðum, og jafnvel látnum, konum. Forsvarsmenn hafa neitað fyrir hvers kyns nauðganir en hafa tekið fyrir utanaðkomandi rannsókn á atvikum 3. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert