Trump: „Khan er stórslys“

Donald Trump í móttökuathöfn við Buckingham-höll í London í byrjun …
Donald Trump í móttökuathöfn við Buckingham-höll í London í byrjun mánaðarins. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt áfram gagnrýni sinni á Sadiq Khan, borgarstjóra London, með því að bregðast við ummælum bresks dálkahöfundar sem hefur verið sakaður um fordóma gagnvart múslimum. Eitt sinn kallaði hann farandfólk „kakkalakka“.

Ummælin voru höfð uppi eftir að fimm líkamsárásir voru gerðar í London á innan við sólarhring þar sem þrír létust og þrír til viðbótar særðust.

Dálkahöfundurinn Katie Hopkins hafði skrifað á Twitter um glæpi í „Londonistan undir stjórn Khan“ og notaði þar orðalag sem er víða talið niðrandi í garð þeirra múslima sem búa í London og forfeðra Khan frá Pakistan.

„London þarf á nýjum borgarstjóra að halda undir eins. Khan er stórslys – hann á bara eftir að versna!“ tísti Trump í svari sínu við tísti Hopkins. Bætti hann við að borgarstjórinn væri „þjóðarskömm sem væri að eyðileggja“ borgina.

Talsmaður Khan brást við með því að segja að hugur borgarstjórans væri hjá fjölskyldum fórnarlambanna og að hann „ætlaði ekki að eyða tíma í að bregðast við svona tísti“.

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, sagði að það væri „algjörlega hræðilegt“ að Trump nýtti sér „harmleik fólks sem hefði verið myrt til að ráðast á borgarstjórann“.

56 myrtir í London á árinu

Lögreglan hefur handtekið fjórtán vegna árásanna, þar á meðal þó nokkra pilta og eina stúlku.

18 ára piltur var stunginn til bana á föstudagskvöld í Wandsworth í suðurhluta London. Nokkrum mínútum síðar var 19 ára piltur skotinn til bana í Plumstead, í suðausturhluta London.

Seinnipartinn á laugardag lést karlmaður á fertugsaldri eftir að hafa verið stunginn í Tower Hamlets.

Fyrr þann sama dag voru tveir menn stungnir í Clapham og annar í Brixton.

Alls hafa 56 verið myrtir í London á þessu ári. Á sama tíma í fyrra höfðu 77 morð verið framin í borginni, þar af 48 eftir hnífstungur.

Sadiq Khan, borgarstjóri London.
Sadiq Khan, borgarstjóri London. AFP

„Algjör aumingi“

Fyrr í þessum mánuði var forsetinn varla lentur í London við upphaf opinberrar heimsóknar sinnar til Bretlands þegar hann tísti að Khan væri „algjör aumingi“.

Khan hafði gagnrýnt að rauði dregillinn hefði verið dreginn út fyrir Trump vegna heimsóknarinnar. Khan, sem er fyrsti músliminn til að gegna starfi borgarstjóra í London, skrifaði einnig blaðagrein þar sem hann bar Trump saman við evrópska einræðisherra á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.

Í ferðalagi til London í júlí í fyrra sakaði Trump Khan um að hafa staðið sig illa í að takast á við hryðjuverk og sagði hann innflytjendur tengjast aukinni glæpatíðni í borginni.

Deila þeirra hófst þegar Khan, sem er sonur rútubílstjóra sem flutti til Bretlands frá Pakistan á sjöunda áratugnum, gagnrýndi ferðabannið til Bandaríkjanna sem Trump beindi að fólki frá ákveðnum múslimaþjóðum. 

mbl.is