„Dróninn var í íranskri lofthelgi“

AFP

Dróni Bandaríkjahers sem var skotinn niður af írönskum yfirvöldum í síðustu viku var innan lofthelgi Írans, segir yfirmaður þjóðaröryggisráðs Rússlands. Þetta gengur þvert á það sem bandarísk yfirvöld halda fram.

„Ég er með upplýsingar um það frá varnarmálaráðuneyti Rússlands að dróninn hafi verið í íranskri lofthelgi,“ hafa rússneskar fréttastofur eftir Nikolai Patrushev en hann ræddi við fréttamenn í Jerúsalem í morgun. Hann er þar á fundi með bandarískum og ísraelskum embættismennum.

Mikil spenna er í samskiptum Bandaríkjanna og Íran og mátti litlu muna að Bandaríkin gerðu loftárásir á Íran eftir að dróninn var skotinn niður.

Írönsk yfirvöld halda því fram að dróninn hafi rofið íranska lofthelgi við Hormuz-sund en varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna neitar að hann hafi farið yfir á yfirráðasvæði Írana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert