Vill að boðað verði til nýs þjóðaratkvæðis

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins. AFP

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hefur skorað á næsta forsætisráðherra Bretlands, að leggja mögulegan samning um útgöngu landsins úr Evrópusambandinu eða mögulega útgöngu án samnings í þjóðaratkvæði.

Fram kemur á fréttavef bresku sjónvarpsstöðvarinnar Sky að Corbyn hafi ennfremur lýst því yfir í bréfi til flokkmanna að komi til slíkrar atkvæðagreiðslu muni Verkamannaflokkurinn beita sér fyrir því að Bretland verði áfram innan Evrópusambandsins.

Meirihluti breskra kjósenda greiddi atkvæði með því í þjóðaratkvæði sem fram fór sumarið 2016 að Bretland segði skilið við Evrópusambandið og hefur síðan verið unnið að því að hrinda niðurstöðunni í framkvæmd en ekki hefur enn orðið af útgöngunni.

Leiðtogaval stendur yfir innan breska Íhaldsflokksins þar sem valið stendur á milli Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, og Jeremys Hunt eftirmanns hans í embætti. Tilkynnt verður 22. júlí hver sigraði og verður þá nýr forsætisráðherra.

Ekkert þjóðaratkvæði undir stjórn Corbyns?

Corbyn hefur verið harðlega gagnrýndur innan Verkamannaflokksins fyrir að taka ekki skýra afstöðu til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Hefur mörgum kjósendum þótt stefna flokksins gagnvart fyrirhugaðri útgöngu úr Evrópusambandinu óljós.

Kallaði Corbyn ennfremur í dag eftir því að boðað verði til þingkosninga í landinu líkt og hann hefur gert ítrekað til þessa. Hins vegar kom ekki fram í bréfi Corbyns hvernig yrði tekist á við útgönguna ef Verkamannaflokkurinn kæmist til valda.

Fram kemur í fréttinni að við þær aðstæður kynni Verkamannaflokkurinn að semja við Evrópusambandið um eigin útgöngusamning og hann samþykktur án þess til þess kæmi að hann yrði lagður í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert