Lambert látinn eftir áratuga deilur

Fólk kom saman í morgun til að biðja fyrir Lambert.
Fólk kom saman í morgun til að biðja fyrir Lambert. AFP

Vincent Lambert, franskur maður sem hefur verið heiladauður og lamaður fyrir neðan háls í áratug, er látinn. Franskir læknir slökktu endanlega á vélum sem héldu honum á lífi fyrir meira en viku, en málið hefur þótt afar umdeilt í Frakklandi og víðar. 

Lambert, 42 ára, lenti í alvarlegu vélhjólaslysi árið 2008 og hefur verið haldið á lífi með næringargjöf og öndunarvél síðan. 

Mál Lamberts hefur klofið bæði fjölskyldu hans og frönsku þjóðina alla í tvennt í afstöðu sinni til líknardráps. 

Í kjölfar slyssins sögðu læknar að ástand hans myndi aldrei skána. Framtíð hans olli harðri baráttu fyrir dómstólum á milli eiginkonu og 6 systkina hans annars vegar, og foreldra hans og tveggja annarra systkina hins vegar. 

Foreldrar Lambert vildu að honum yrði haldið á lífi, á meðan systkini hans og eiginkona tóku undir með læknum hans sem ráðlögðu fjölskyldunni að slökkva á öndunarvélum og hætta næringargjöf. Það væri mannúðlegast að leyfa Lambert að deyja. 

Á endanum höfðu læknar og eiginkona Lambert betur og var slökkt á öndunarvélum 2. júlí í kjölfar þess að æðsti dómstóll Frakklands úrskurðaði að næringargjöf yrði hætt. 

„Hann hefur litla meðvitund en hann er ekki grænmeti,“ sagði 73 ára gömul móðir Lambert í lokatilraun sinni til að halda syni sínum á lífi fyrir nefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf á mánudag. 

Móðir Lambert greinir frá máli sínu við réttindanefnd Sameinuðu þjóðanna …
Móðir Lambert greinir frá máli sínu við réttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf. AFP

Fyrir eiginkonu hans aftur á móti hefur málið alla tíð snúist um það sem Lambert sjálfur hefði viljað. „Að halda honum á lífi með tækni og algjörlega ósjálfbjarga? Fyrir honum væri það óásættanlegt,“ sagði hún. 

Spennufíkill sem elskaði að hafa gaman

Fyrir vélhjólaslysið árið 2008 segir fjölskyldan Lambert hafa verið mikinn spennufíkil sem elskaði að hafa gaman og var meira að segja eitt sinn vikið úr skóla. 

Lambert var fyrsta barn foreldra hans saman, sem áttu hvort um sig börn úr fyrri hjónaböndum. Parið eignaðist svo fjögur börn eftir að þau giftu sig og var Vincent sjötti í röðinni af alls níu systkinum. 

Líkt og systkini hans var Lambert sendur 12 ára að aldri í kaþólskan heimavistarskóla í Suðvestur-Frakklandi, en var rekinn úr skólanum fyrir óhlýðni. Hann kláraði síðar nám sitt í borginni Reims í norðvestanverðu landinu. 

Vincent Lambert.
Vincent Lambert. AFP

Samkvæmt systur Lambert var hann alltaf ósammála hugsunarhætti foreldra sinna, sem eru afar strangtrúaðir kaþólikkar. 

Eftir menntaskóla lærði Lambert hjúkrunarfræði og sérhæfði sig í geðhjúkrun. Eftir nám vann hann á mismunandi spítölum þangað til að hann hitti einn daginn annan hjúkrunarfræðing sem varð síðar eiginkona hans árið 2007.

Um 18 mánuðum eftir brúðkaup þeirra, þegar eiginkona Lambert var langt gengin með fyrsta barn þeirra, lenti Lambert í vélhjólaslysinu. 

Fylgst með heimsóknum í gegnum myndavél

Honum var komið með hraði á spítala í Reims, hvar hann var þangað til í dag, á bak við luktar dyr með öryggismyndavél sem fylgdist með gestum sem komu til hans. 

Í gegnum árin horfði fjölskylda hans á ástand hans versna, vöðvarnir hurfu, andlitsfetta einkenndi andlit hans og einstaka sinnum grét hann. 

Jafnvel þó að hann hafi stundum grátið eða brosið telja læknar hans að það stafi af „tilfinningalegu minni“, frekar en viðbrögðum við því sem sé að gerast. 

Foreldrar Lambert hafa ítrekað hótað því að kæra lækna hans fyrir manndráp ef þeir hættu næringargjöf og aðhlynningu. 

Spítalinn í Reim hvar Lambert hefur verið síðan 2008.
Spítalinn í Reim hvar Lambert hefur verið síðan 2008. AFP

„Vincent hefur það fínt. Þetta eru ekki endalok lífs hans,“ sagði móðir hans við fjölmiðla í maí. „Hann þarf bara eitthvað að drekka og borða og smá ást.“

Eiginkona Lambert, 38 ára, flutti til Belgíu með 11 ára dóttur þeirra vegna fjölmiðlaathygli í heimalandinu. Hefur hún skrifað bók um reynslu sína eftir slys Lamber sem ber titilinn: „Af því að ég elska hann, vil ég sleppa honum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert