Flugu yfir rangan bæ

Flugvél Patrouille Suisse af gerðinni F-5E.
Flugvél Patrouille Suisse af gerðinni F-5E. Ljósmynd/Wikipedia.org

Patrouille Suisse, listflugsveit svissneska flughersins, fór bæjarvillt á dögunum og sýndi fyrir vikið listir sínar yfir röngu bæjarfélagi í Sviss.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.ch að flugsveitin hafi átt að fljúga yfir bæinn Langenbruck í norðurhluta Sviss 7. júlí til þess að heiðra minningu flugmannsins Oskar Bider sem var frumkvöðull á sviði flugmála. Bider fæddist í bænum 7. júlí árið 1891 og fórst sama mánaðardag árið 1919 af slysförum.

Þess í stað flaug flugsveitin yfir bæinn Mümliswil hvar fram fóru árleg hátíðarhöld tileinkuð jóðli. Varð hátíðargestum nokkuð bilt við vegna þessarar óvæntu heimsóknar.

Haft er eftir talsmanni svissneska hersins, Daniel Reist, að um mannleg mistök hafi verið að ræða. Stutt væri á milli bæjarfélaganna og flugsveitarforinginn hefði talið að um réttan bæ væri að ræða. Þá séu flugvélar sveitarinnar gamlar og flugmennirnir þurfi að reiða sig á landakort og það sem ber fyrir augun á jörðu niðri.

mbl.is