Kókaín fannst undir hárkollu

Samkvæmt tilkynningu spænskra lögregluyfirvalda dró maðurinn að sér athygli tollgæslumanna …
Samkvæmt tilkynningu spænskra lögregluyfirvalda dró maðurinn að sér athygli tollgæslumanna þar sem hann var „allmjög stressaður“ og hárkolla hans í „ósamsvarandi stærð“. Ljósmynd/Spænska lögreglan

Kólumbískur maður var handtekinn á El Prat-flugvellinum við Barselóna á Spáni á dögunum með hálft kíló af kókaíni undir hárkollu sinni.

Samkvæmt tilkynningu spænskra lögregluyfirvalda dró maðurinn að sér athygli tollgæslumanna þar sem hann var „allmjög stressaður“ og hárkolla hans í „ósamsvarandi stærð“.

Lögreglumenn á flugvellinum færðu manninn til yfirheyrslu og leitar og fundu þar lokaða flata pakkningu sem hafði verið límd með límbandi við skallann á honum. Í henni voru 503 grömm af kókaíni, sem talið er vera yfir rúmlega 4,2 milljóna króna virði í götusölu. Maðurinn var að koma með beinu flugi frá Bógóta, höfuðborg Kólumbíu.

Spænsk lögregla virðist henda gaman að þessu fíkniefnamáli og kallar það í tilkynningu sinni „Hárkolluaðgerðina“ eða Operation Toupee upp á enska tungu.

AFP-fréttastofan segir að smyglarar reyni oft áhugaverðar leiðir við að koma dópi til Spánar. Á undanförnum árum hafi lögregla fundið kókaín inni í brjóstapúðum og ananösum, í sessu hjólastóls og inni í gifsi utan um brotinn fótlegg, svo eitthvað sé nefnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert