Upplifir martröð kvenna í El Salvador

Evelyn Beatríz Hernández Cruz fyrir utan dómstólinn í San Salvador. …
Evelyn Beatríz Hernández Cruz fyrir utan dómstólinn í San Salvador. Hún segir barnið hafa fæðst andvana, en saksóknari segir hana seka um manndráp. AFP

Dómstóll í El Salvador hefur tekið til meðferðar á ný mál konu sem dæmd var til 30 ára fangelsisvistar fyrir manndráp eftir að hún fæddi  barn inni á salerni, sem hún segir hafa fæðst andvana. Saksóknarar fullyrða hins vegar að um þungunarrof hafi verið að ræða, en þungunarrofslöggjöf er óvíða harðari en í El Salvador. BBC greinir frá.

Konan, Evelyn Beatríz Hernández Cruz, hafði setið af sér tæplega þrjú ár af 30 ára dómi þegar hún var látin laus úr fangelsi í febrúar á þessu ári eftir að áfrýjunardómstóll úrskurðaði að réttað skyldi í málinu á ný. Hernández Cruz fékk þá leyfi til að dvelja heima hjá sér þar til dómur fellur aftur.

Saksóknarar segja Hernández Cruz seka þar sem hún hafi ekki sætt heilbrigðiseftirliti á meðgöngunni. Sjálf segist hún hins vegar ekki hafa vitað að hún væri ólétt. Sérfræðingar gátu hins vegar ekki staðfest hvort fóstrið hefði dáið í móðurkviði, eða hvort það hefði dáið skömmu eftir fæðingu.

„Evelyn er að upplifa martröð margra kvenna í El Salvador,“ sagði lögfræðingur hennar Elizabeth Deras í samtali við AP-fréttaveituna.

„Þökk sé Guði, þá hef ég það fínt. Ég er saklaus og legg traust mitt á Guð og lögfræðinga mína,“ sagði Hernández Cruz er Efe-fréttaveitan náði tali af henni fyrir utan dómssalinn.

Tugir stuðningsmanna hennar höfðu safnast saman fyrir utan dómshúsið í höfuðborginni San Salvador og kölluðu eftir lagabreytingu, en þetta er fyrsta þungunarrofsmálið sem réttað er í á ný í El Salvador.

Þungunarrof er bannað með lögum í landinu, hverjar sem kringumstæðurnar eru og hafa tugir kvenna verið fangelsaðir í málum þar sem konurnar sjálfar hafa fullyrt að um fósturlát eða andvana fæðingu hafi verið að ræða.

Hernández Cruz fæddi barnið á heimili sínu, sem er í dreifbýlli sveit, í apríl 2016. Hún missti meðvitund  og mikið blóð við fæðinguna. BBC hefur eftir móður hennar að læknar hafi enn verið að hlúa að henni á sjúkrahúsinu þegar lögregla var mætt á svæðið.

Við upphaflegu réttarhöldin sagði Hernández Cruz að sér hefði verið nauðgað ítrekað og sagði lögfræðingur hennar hana hafa verið hrædda við að kæra nauðgunina, en nokkrir fjölmiðlar í El Salvador segja nauðgarann tilheyra glæpagengi.

Hernández Cruz fullyrðir engu að síður að hefði hún vitað að hún væri ólétt hefði hún farið í læknisskoðun. Hún hafi hins vegar talið einkenni óléttunnar vera magaverki þar sem blætt hafi með reglulegu millibili og hún því talið sig vera á blæðingum. Dómarinn úrskurðaði engu að síður að henni hafi verið kunnugt um að hún væri ólétt.

Mannréttindasamtök í El Salvador segja hið minnsta 20 konur til viðbótar sitja í fangelsi vegna brota á þungunarrofslöggjöfinni, en undanfarinn áratug hefur mannréttindasamtökum tekist að fá um 30 konur leystar úr haldi með endurmati á sönnunargögnum og endurupptöku mála.

mbl.is