Óttast að raðmorðingi sé að verki

Chynna Deese og Lucas Fowler kynntust á farfuglaheimili í Króatíu …
Chynna Deese og Lucas Fowler kynntust á farfuglaheimili í Króatíu og felldu saman hugi. Ljósmynd/Twitter

Lögreglan í Bresku-Kólumbíu í Kanada rannsakar nú tvöfalt morð tveggja ferðalanga sem fundust skotnir til bana. Fórnarlömbin voru ungt par, Chynna Deese 24 ára gömul frá Bandaríkjunum og Lucas Fowler, 24 ára Ástrali.

Lík þeirra fundust á mánudag í síðustu viku og stuttu síðar fannst bíll þeirra yfirgefinn við þjóðveg nálægt vinsælum ferðamannastað, Liard Hot Springs. Vitni sáu til þeirra þar sem þau stóðu við bílinn rétt við þjóðveginn. Bíllinn virtist hafa bilað en parið var við góða heilsu og virtist hafa stjórn á aðstæðum.

Bíll þeirra fannst yfirgefinn við þjóðveginn.
Bíll þeirra fannst yfirgefinn við þjóðveginn. Ljósmynd/Twitter

Lögreglan hefur dreift skissu af manni sem sást tala við Lucas við þjóðveginn og biðlar til almennings að koma upplýsingum sem gætu nýst við rannsókn málsins á framfæri.

Skissa af manninum sem sást tala við kærustuparið við bíl …
Skissa af manninum sem sást tala við kærustuparið við bíl þess í kanti þjóðvegarins. Ljósmynd/Royal Canadian Mounted Police

Faðir Lucasar, Stephen Fowler, er yfirlögregluþjónn í Nýju-Suður-Wales-lögreglunni í Ástralíu og ferðaðist til Kanada um leið og hann frétti af örlögum sonar síns. Hann segir að saga þeirra Chynna og Lucasar hafi verið „ástarsaga sem endaði með harmleik“.

Hann mun ekki taka þátt í rannsókninni en segist hafa mikla trú á þeim lögreglumönnum sem fara með rannsókn málsins til að leysa ráðgátuna. Unga kærustuparið hafði kynnst á farfuglaheimili í Króatíu árið 2017 og urðu þau samstundis ástfangin. Síðan þá höfðu þau verið dugleg að ferðast um heiminn saman.

Tveir unglingar týndir og brunnið lík

Lögreglan í Bresku-Kólumbíu rannsakar einnig hvarf tveggja unglinga, þeirra Kam McLeod sem er 19 ára og Bryer Schmegelsky sem er 18 ára. Húsbíll þeirra fannst brunninn til kaldra kola nálægt smábænum Dease Lake síðastliðinn föstudag.

Þeir voru báðir frá Port Alberni í Vancouver og höfðu verið á ferðalagi um Norður-Kanada. Fjölskyldur þeirra höfðu samband við lögregluyfirvöld eftir að ekkert heyrðist frá þeim í nokkra daga. Síðast sást til þeirra yfirgefa matvöruverslun í Dease Lake.

Lögreglan leitar þeirra eftir að bíll þeirra fannst brunninn. Brunnið …
Lögreglan leitar þeirra eftir að bíll þeirra fannst brunninn. Brunnið lík fannst um einn kílómetra frá bílnum. Ljósmynd/Royal Canadian Mounted Police

500 kílómetrar á milli

Dease Lake er um 500 kílómetra frá Liard Hot Springs þar sem lík Chynna Deese og Lucas Fowler fundust og rannsakar lögreglan nú hvort tengsl séu á milli morðanna á þeim og hvarfs unglinganna tveggja.

En ráðgátan varð töluvert flóknari þegar lögreglan fann brunnið lík stutt frá rústum húsbíls unglinganna. Ekki hafa verið borin kennsl á líkið en búið er að útiloka að það sé af týndu drengjunum. Lögreglan gaf út skissu af manninum sem fannst látinn og biður almenning um aðstoð við að bera kennsl á hann.

Skissa af manninum sem fannst brunninn skammt frá húsbíl drengjanna. …
Skissa af manninum sem fannst brunninn skammt frá húsbíl drengjanna. Lögregla reynir að bera kennsl á hann. Ljósmynd/Royal Canadian Mounted Police

Tveir menn mögulega týndir

Þá er talið líklegt að tveir menn til viðbótar séu týndir eftir að bíll þeirra fannst yfirgefinn við Logan-vatn, suður af Kamloops í Bresku-Kólumbíu. Ekkert hefur heyrst frá mönnunum, sem heita Ryan Provencher og Richard Scurr, síðan 17. júlí og þykir það mjög ólíkt þeim. Þeir eru báðir á fertugsaldri.

Lögreglan hefur ekki gefið út hvenær bíll þeirra fannst eða hvort verið sé að kanna möguleikann á því að hvarf þeirra tengist morðunum á kærustuparinu, líkinu sem fannst brunnið eða hvarfi unglinganna tveggja. Það eru 1.400 kílómetrar milli Logan-vatns og Dease Lake þar sem unglingarnir sáust síðast.

Síðast sást til þeirra Richard Scurr og Ryan Provencher 17. …
Síðast sást til þeirra Richard Scurr og Ryan Provencher 17. júlí. Bíll þeirra fannst svo mannlaus síðar. Ljósmynd/Twitter

Eru tengsl milli málanna?

Mjög óvanalegt er að svo margir finnist látnir eða séu týndir á þessum slóðum í Norður-Kanada og því hafa málin vakið athygli fjölmiðla um allan heim. Margir telja, bæði almenningur og fjölmiðlamenn, að atvikin séu öll tengd og að mögulega hafi raðmorðingi verið að verki.

BBC News

CBC News

Global News

mbl.is