Stefnir Belgíu vegna þriðja orkupakkans

Evrópudómstóllinn í Lúxemborg.
Evrópudómstóllinn í Lúxemborg. Ljósmynd/Wikipedia.org

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur stefnt ríkisstjórn Belgíu fyrir Evrópudómstólnum fyrir að hafa ekki innleitt reglugerðir um raforku og gas á réttan hátt. Reglugerðirnar eru hluti af þriðja orkupakkanum.

Þetta kemur fram á vefsvæði framkvæmdastjórnar ESB.

Ríkisstjórn Belgíu hefur ekki afsalað valdi sínu til að taka bindandi ákvarðanir um raforku og gas til eftirlitsstofnana þar í landi. Eftirlitsstofnanir hafa eins og stendur einungis heimild til að leggja til lagabreytingar en ríkisstjórn Belgíu er ekki bundin af þeim tillögum.

Þá eru ákvarðanir um að tengja raforku- og gaskerfi Belgíu við sameiginlegan orkumarkað ESB teknar af ríkisstjórninni en ekki eftirlitsstofnunum líkt og reglugerðir ESB segja til um.

Framkvæmdastjórn ESB hóf málið í október árið 2014 með formlegu skeyti til ríkisstjórnar Belgíu. Ekki hefur verið brugðist við tilmælum sem þar komu fram enn sem komið er og hefur framkvæmdastjórnin því ákveðið að höfða mál gegn Belgíu.

mbl.is