Trudeau braut siðareglur

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada segist sætta sig við niðurstöðu nefndarinnar, …
Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada segist sætta sig við niðurstöðu nefndarinnar, en hann sé ekki sammála öllu því sem þar kemur fram. AFP

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada braut siðareglur með afskiptum sínum af SNC-Lavalin-málinu svonefnda. Þetta er niðurstaða siðanefndar, sem segir Trudeau hafa brotið gegn reglunum með því að biðja þáverandi ríkissaksóknara um að semja við SNC-Lavalin-verktakafyrirtækið. Hann hafi með óviðeigandi hætti beitt Jody Wilson-Raybould, samflokkskonu sína og fyrrverandi ríkissaksóknara, óeðlilegum þrýstingi vegna dómsmáls fyrirtækisins.

BBC segir forsætisráðherrann hafa lýst því yfir að hann sætti sig við niðurstöðu nefndarinnar, en hann sé ekki sammála öllum niðurstöðum hennar.

Var Trudeau fundinn sekur um að hafa brotið gegn grein níu sem fjallar um hagsmunaárekstra og bannar opinberum embættismönnum að nota stöðu sína til að hafa áhrif á hagsmuni annarra. Er forsætisráðherrann sagður hafa með beinum hætti og í gegnum starfsmenn sína beitt ýmsum aðferðum til að hafa áhrif á Wilson‑Raybould og gera ákvörðun hennar tortryggilega.

Niðurstaða siðanefndar kann að koma Trudeau illa er Kanadamenn ganga til þingkosninga í október.

Wilson-Raybould segir skýrsluna staðfesta að forsætisráðherrann og starfsfólk hans hafi beitt hana óeðlilegum þrýstingi.

Það var fyrr á þessu ári sem hún sakaði Trudeau og starfsfólk hans um að hafa um mánaða skeið þrýst á sig að hætta við skattarannsókn gegn fyrirtækinu. Slík rannsókn myndi kosta Kanadamenn störf og flokkinn atkvæði.

Í kjölfar þess að ásakanirnar rötuðu í fjölmiðla rak Trudeau tvo fyrrverandi ráðherra og þá lét einn helsti aðstoðarmaður hans Garry Butts af störf­um. Ímynd forsætisráðherrans laskaðist sömuleiðis við fréttir af málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert