Sjö létust í eldsvoða á ferju

AFP

Sjö manns, þar á meðal tvö börn, létu lífið og fjögurra annarra er saknað eftir að eldur kom upp í ferju út af eyjunni Sulawesi í Indónesíu síðustu nótt.

Fram kemur í frétt AFP að tugir farþega hafi verið um borð þegar eldurinn kom upp. Að sögn sjónarvotta varð eldsins fyrst vart í vélarrúmi ferjunnar.

Lögreglan segir eldinn hafa breiðst hratt út um ferjuna. Talið er að upptök eldsins megi rekja til þess að sprenging hafi orðið í eldsneytistanki hennar.

Ekki er ljóst hversu margir voru um borð í ferjunni þegar eldurinn kom upp. Farþegalistinn hafði að geyma 50 nöfn. Hins vegar hefur 61 verið bjargað. Þá hafa sjö fundist látnir.

Ferjufyrirtæki í Indónesíu selja gjarnan fleirum far en heimilt er segir í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert