Systurnar sem kærðu Epstein fyrst

Auðkýfingurinn og barnaníðingurinn Jeffrey Epstein. Enginn virtist vilja hlusta þegar …
Auðkýfingurinn og barnaníðingurinn Jeffrey Epstein. Enginn virtist vilja hlusta þegar Farmer systurnar vöktu fyrst athygli á hegðun hans. AFP

Níu árum áður en lögregla hóf rannsókn á hegðun auðkýfingsins og barnaníðingsins Jeffrey Epstein og lagskonu hans Ghislaine Maxwell tilkynntu systurnar Maria og Annie Farmer um vafasama hegðun þeirra. Það vildi hins vegar enginn hlusta. New York Times greinir frá.

Eftir því sem fjölgar í hópi þeirra kvenna sem greint hafa frá kynferðisofbeldi sem þær sættu af hálfu Epsteins veldur tilhugsunin um hvað hefði gerst ef einhver hefði tekið hana alvarlega Mariu Farmer miklu hugarangri.

Fyrir 24 árum síðan var Farmer listamaður sem flæktist inn í það óhefðbundna líf sem Epstein lifði baki luktum dyrum á lúxusheimilum sínum. Epstein bauðst til að aðstoða hana við að koma sér á framfæri sem listamaður, en því lauk öllu snögglega eitt sumarkvöld árið 1996 þegar Epstein og Maxwell tóku að þukla harkalega á henni.

Hún komst síðar að því að 16 ára systir hennar Annie Farmer hafði orðið fyrir óþægilegu berbrjósta nuddi á búgarði Epstein í Nýju Mexíkó.

Tvö af meintum fórnarlömbum Epstein, Michelle Licata og Courtney Wild.
Tvö af meintum fórnarlömbum Epstein, Michelle Licata og Courtney Wild. AFP

Voru virk í listalífinu 

Farmer setti sig í samband við lögregluyfirvöld í New York og svo síðar bandarísku alríkislögregluna FBI og bauðst til að greina frá því sem hún vissi um Epstein og þá fylkingu ungra kvenna sem farið var með heim til hans.

New York Times segir FBI ekki hafa gengist við því að hafa fengið upplýsingarnar, en Farmer segir þær þó hljóta að vera einhvers staðar á skrá af því að alríkislögreglumenn hafi sett sig í samband við hana mörgum árum síðar og lagt fyrir hana spurningar.

Farmer setti sig einnig í samband við fólk sem var leiðandi í listalífinu í New York, en þau Epstein og Maxwell voru mjög virk þar, og eins reyndi hún að selja tímariti sögu sína. Ekkert gerðist hins vegar.

Eftir að hún sætti hótunum í kjölfar frásagna þeirra systra hætti hún að mála og dró sig út úr listalífinu í New York.

„Ég vildi ekki að nokkur önnur ung kona þyrfti að ganga í gegnum það sama og Annie,“ sagði Farmer í viðtali við New York Times. „Ég gat tekist á við það sem ég lenti í, en ekki hvað kom fyrir hana.“

Epstein hélt næstu níu árin áfram að tæla ungar stúlkur inn í hóp sinn næstu níu árin, áður en lögregla tók hann til rannsóknar.

Epstein lést í fangelsi á Manhattan fyrr í mánuðinum, að því er virðist eftir að hafa tekið eigið líf, en hann var þar í varðhaldi fyrir kynlífsmansal á ungum stúlkum í New York og Flórída.

Fangelsið á Manhattan þar sem Epstein lést fyrr í mánuðinum.
Fangelsið á Manhattan þar sem Epstein lést fyrr í mánuðinum. AFP

Keyptu mynd af Farmer úr listaskóla

Undanfarin ár hafa aðrar konur komið fram með alvarlegri ásakanir gegn Epstein um nauðgun og barnaníð. Engar ásakananna eru þó eldri en Farmer systranna og segist Maria finna til sektarkenndar að hafa kynnt systur sína fyrir Epstein.

Sjálf kynntist hún honum er hún var við nám í New York Academy of Art. Þar sérhæfði hún sig í nektarmyndum og myndum af ungmennum. Það var svo á sýningu skólans sem skólastjórinn Eileen Guggenheim, kynnti hana fyrir Maxwell og Epstein sem keypti eina mynda hennar. Hann bauð henni starf í kjölfarið við að kaupa listaverk fyrir sig og fékk hana til að hafa umsjón með hluta fasteignar sem hann var að láta gera endurbætur á.

Farmer var 25 ára þegar hún kynntist sérkennilegum lífstíl Epsteins þar sem fjöldi stúlkna og ungra kvenna kom í það sem Maxwell kallaði „módelprufur“ fyrir Victoria Secret nærfataframleiðandann. Hún minnist líka mikillar spennu í húsinu þegar von var á Bill Clinton, þáverandi Bandaríkjaforseta í heimsókn. Farmer hitti ekki Clinton, en  hún hitti Donald Trump núverandi Bandaríkjaforseta eitt sinn á skrifstofu Epsteins. Farmer rifjar upp leitandi augnaráð hans þar til Epstein sagði við Trump: „Hún er ekki fyrir þig“.

Bæði Clinton og Trump hafa gengist við því að þekkja Epstein. Clinton segist hins vegar ekki hafa vitað að neitt ósiðlegt ætti sér stað og Trump kvaðst „ekki hafa verið aðdáandi“ Epstein.

„Ég verð að fara og ná í stelpur fyrir Jeffrey

Farmer segir Maxwell hafa verið sjarmerandi og vingjarnlega og sem lagsmær Epstein þá veitti hún ungum konum þá tilfinningu að þær væru öruggar í návist hans. Hún virtist þó einnig hafa átt stóran þátt í að koma með ungar konur þangað inn.

Minnist Farmer þess að Maxwell hafi sagt eitt sinn er hún var að yfirgefa húsið: „Ég verð að fara og ná í stelpur fyrir Jeffrey“.

Sjálf sagði hún stúlkurnar sem hún leitaði að vera „gjafvaxta“. „Þau voru með bílstjóra sem ók um og svo sagði Ghislaine allt í einu, „Náðu í þessa stelpu“,“ rifjar hún upp. „Þá stoppaði bíllinn og hún hljóp út og fékk stelpuna til að spjalla við sig.“

Annie, yngri systir Mariu, var meðal þeirra stúlkna sem vakti áhuga parsins og minnist Annie Farmer Epsteins sem vingjarnlegs og hversdagslegs manns sem klæddist joggingbuxum, hellti kampavíni í glös og ræddi við hana um háskólahugmyndir hennar.

Alexander Acosta, sem nýlega var látinn taka pokann sinn sem …
Alexander Acosta, sem nýlega var látinn taka pokann sinn sem atvinnumálaráðherra Bandaríkjanna,átti aðkomu að samkomulagi sem alríkisyfirvöld gerðu við Epstein árið 2008. AFP

Var látinn veita Epstein fótanudd

Epstein bauðst svo til að senda hana í Taílandsferð og bauð henni í helgarferð á búgarð sinn í Nýju Mexíkó undir því yfirskyni að þar yrði líka hópur stúdenta í fylgd Maxwell. Þegar þangað kom voru það hins vegar eingöngu þau þrjú.

Hún segir ýmsar óþægilegar uppákomur hafa orðið um helgina. Þannig hafi Maxwell þrýst á hana að veita Epstein fótanudd og leiðbeint henni á meðan. Þá hafi þau farið í bíó þar sem Epstein káfaði á henni. Svo vaknaði hún einn morguninn við að hann kom inn í herbergið til hennar, sagði að hann vildi kúra og skreið því næst upp í rúm hjá henni. Maxwell hafi þá ítrekað spurt hvort hún vildi ekki fá nudd. Þegar hún lét að lokum undan hafði hún allan tíman á tilfinningunni að Epstein væri að fylgjast með.

Stundi af ýktri nautn

Maria Farmer sem dvaldi um sumarið á landareign Epstein í Ohio minnist komu Epstein og Maxwell á staðinn. Þá fékk hún óvenjulega beiðni. Epstein þurfti að fá fótanudd. Hún segir nuddið hafa verið stutt og klaufalegt, en Epstein hafi stunið af ýktri nautn. Maxwell hafi síðan bæst í hópinn og tóku þau bæði þá að káfa á henni fullklæddri í sameiningu, m.a. með því að snúa upp á geirvörtur hennar þagað til hún fékk marbletti og ræða útlit hennar. Hún segist hafa óttast að að sér yrði nauðgað og flúði út úr herberginu og byrgði sig því næst inni í öðrum hluta hússins.  

Eftir að hafa rætt við systur sína og komist að því sem þau höfðu gert henni snéri Farmer aftur til New York. Þar hringdi Maxwell svo í hana og tilkynnt henni að hún ætlaði að brenna öll verk hennar og að ferli Farmer sem listamanni væri lokið.

Tilraunir hennar til að vekja athygli lögreglu á málinu skiluðu engu og viðtal systranna við blaðamann Vanity Fair árið 2003 vegna greinar sem blaðið birti um fjármál Epsteins rataði ekki í blaðið. Blaðamaðurinn sagðist síðar hafa trúað þeim systrum og að hann teldi ritstjórann hafa látið undan þrýstingi Epstein sem hafði mikil afskipti af umfjölluninni.

Það spurðist engu að síður út að systurnar hefðu rætt við tímaritið og þá hafði Maxwell aftur samband við Farmer. „Þú skalt passa þig,“ segir hún Maxwell hafa sagt. „Ég veit að þú ferð reglulega út á West Side Highway hraðbrautina. Passaðu þig vel þegar þú ert þar, af því að það er margar leiðir til að drepast þar.“

Það var svo árið 2006 sem alríkislögreglan hafði samband og segist Farmer þá hafa upplifað nýja von um að Epstein yrði látinn svara til saka, en hann var þá kærður fyrir  kynferðsbrot gegn unglingi í Flórída. Epstein lýsti sig sekan um vægara brot og það var ekki fyrr en nú í sumar sem frekari rannsókn hófst á gjörðum hans.

Farmer segist hafa farið að gráta þegar hún frétti af frásögnum þeirra kvenna. „Í hvert skipti sem ég heyri einhverja stúlknanna segja sína sögu þá verð ég niðurbrotinn,“ segir hún og veltir fyrir sér hvað hefði þurft til að stoppa hann þegar þær systur sögðu fyrst frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert