Robert Mugabe látinn

Robert Mugabe, fyrsti forseti Simbabve eftir að landið fékk sjálfstæði, er látinn, 95 ára að aldri.
Hann hafði glímt við veikindi í einhvern tíma og dvalið á sjúkrahúsi í Singapúr frá því í apríl. Hann var hrakinn frá völdum eftir valdarán í nóvember 2017 eftir að hafa verið við völd í meira en þrjá áratugi. 

Robert Mugabe á níræðisafmælinu.
Robert Mugabe á níræðisafmælinu. AFP

Eftir að Mugabe neyddist til þess að fara frá skrifaði Bogi Þór Arason, blaðamaður á Morgunblaðinu umfjöllun í blaðið um Mugabe:

„Móðir Roberts litla trúði því að hann væri heilagt barn. Hún taldi að presturinn hennar hefði fært henni þau skilaboð frá Guði að sonur hennar yrði mikill leiðtogi þegar fram liðu stundir.

Robert litli var feiminn og einförull piltur. Hann undi sér við að lesa bækur dægrin löng þegar hin börnin léku sér. Draumur móður hans um að hann yrði virtur leiðtogi rættist að nokkru leyti síðar á ævinni. Hann var um hríð vonarstjarna margra Afríkumanna eftir að hafa leitt þjóð sína til frelsis og átt stóran þátt í því að leysa hana undan kúgun hvíta minnihlutans í heimalandi sínu, Simbabve. Draumurinn varð síðar að martröð fyrir þjóð hans.

 Mömmustrákurinn Mugabe

Robert Gabriel Mugabe fæddist 21. febrúar 1924 nálægt trúboðsstöð jesúíta í Kutuma í Simbabve, sem hét þá Suður-Ródesía og var nýlenda Breta. Faðir hans, Gabríel, var smiður, ættaður norðan úr grannríkinu Malaví, en móðir hans, Bona, var komin af shóna-fólki sem er stærsti þjóðernishópur Simbabve. Þau eignuðust sex börn og Robert Mugabe var þriðji elstur. Tveir eldri bræður hans dóu ungir.

Straumhvörf urðu í lífi Roberts litla þegar elsti bróðir hans dó. Faðir hans yfirgaf þá fjölskylduna og fór til næststærstu borgar landsins, Bulawayo, þar sem hann fékk vinnu við smíðar. Hann kvæntist þar annarri konu og eignaðist með henni þrjú börn. Þessi „svik“ heimilisföðurins voru reiðarslag fyrir móður Roberts litla. Hún brotnaði niður og megnaði ekki að ala upp börnin fjögur án hjálpar. Robert var elstur þeirra og þótt hann væri aðeins tíu ára að aldri kom það í hlut hans að hlaupa í skarðið fyrir föður sinn og elsta bróðurinn. Þar með var hann sviptur æskunni og bláköld alvara lífsins tók við.

Elsti bróðir Roberts Mugabe þótti mjög efnilegt barn og var augasteinn móður sinnar. Eftir að hann dó tók hún að dekra við Robert sem hún taldi að Guð hefði valið til að verða stórmenni.

Bona var rammkaþólsk kona og ætlaði sér að verða nunna þegar hún kom til Kutuma á unglingsaldri. Hún féll hins vegar fyrir Gabríel, varð ófrísk og skírði barnið í höfuðið á öðrum erkiengli, Míkael. Hún hafði beðið til Guðs að elsti sonurinn yrði prestur en þegar hann dó batt hún vonir sínar við Robert litla. Ábyrgðin sem hann taldi sig bera á velferð móður sinnar lagðist þungt á þennan feimna og viðkvæma pilt sem taldi sig verða að uppfylla væntingarnar sem hún gerði til hans. Þegar hún tók að fara með hann í messur varð hann næstum eins trúrækinn og hún.

Robert litli dáði móður sína en var reiður út í föður sinn sem sinnti ekkert fjölskyldunni, að sögn Donato Mugabe (1926-2007), bróður Roberts. Hann gat ekki fyrirgefið föður sínum svikin og þjáningarnar sem hann olli fjölskyldunni.

Robert fann huggun í lestri bóka. Hann var mjög alvörugefið og einrænt barn, ólíkt bróður sínum og tveimur systrum þeirra sem voru yngri. „Hann var þannig gerður að hann hafði engan áhuga á að eiga marga vini,“ sagði Donato Mugabe. „Bækurnar voru einu vinir hans... Ég gat hlaupið hratt en Robert ekki: hann var latur, var bara alltaf að lesa.“

Hann var einnig ólíkur systkinum sínum að því leyti að hann naut þess að vera í skólanum. Þau bjuggu nálægt skóla sem jesúítar stofnuðu fyrir drengi á aldrinum 12 til 18 ára. Robert gat farið þangað hvenær sem hann vildi og skólastjórinn, írski presturinn Jerome O‘Hea, fékk mikið álit á þessum bókhneigða pilti.

„Mamma sagði okkur að O‘Hea hefði sagt henni að Robert yrði mikilvægur maður, leiðtogi,“ sagði Donato. „Mamma trúði því að presturinn hefði komið með þessi skilaboð frá Guði; hún tók þetta mjög alvarlega... Hún leit á hann sem heilagt barn og vildi að hann yrði prestur.“

Móðir Roberts Mugabe hneigðist til þunglyndis áður en hún missti eiginmanninn og frumburð sinn, ef marka má fyrrverandi kennara í heimabæ hans. Hann segir O‘Hea alltaf hafa fylgst með henni og börnum hennar vegna þess að hann hafi vitað af þunglyndi hennar.

O‘Hea taldi að Robert litli væri óvenjulegum gáfum gæddur, fylgdist grannt með námi hans og sá til þess að hann yrði færður upp um bekk um leið og hann þótti tilbúinn til þess. Robert var því alltaf yngri og smærri vexti en bekkjarbræður hans. Það ýtti undir vanmáttarkennd hans á sama tíma og móðir hans og O‘Hea sáðu fræjum sjálfsdýrkunar.

Robert lagði sig í framkróka við að þóknast móður sinni í öllu og standa sig vel til að fá hrós frá O‘Hea. Skólabræður og systkin hans öfunduðu hann þegar honum var hyglað og gerðu oft grín að honum, kölluðu hann mömmustrák og raggeit.

Dálætið sem móðir Roberts hafði á honum var afbrigðilegt að mati George Kahari, ættingja hans, skólabróður og fyrrverandi prófessors í félagsfræði. Kahari telur að móðir Roberts Mugabe hafi stuðlað að ósveigjanleikanum sem einkenndi framgöngu hans síðar á ævinni. „Þegar hann hefur tekið afstöðu verður henni ekki hnikað. Robert ól til að mynda með sér sjúklegt hatur á föður sínum og það breyttist aldrei,“ segir Kahari. Hann telur að með því að setja Robert á of háan stall hafi móðir hans óviljandi orðið þess valdandi að hann varð utanveltu meðal jafnaldra sinna. Hún hafi þannig ýtt undir „hræðilega vanmetakennd sem hann felur á bak við mælsku sína enn þann dag í dag“.

Stríðni jafnaldranna virðist aðeins hafa hert Robert í þeim ásetningi að skara fram úr í náminu. Hann einsetti sér að sýna þeim sem stríddu honum að hann væri þeim æðri og yrði að lokum kóngur í ríki sínu.

Fékk sjö háskólagráður

Robert Mugabe hóf kennslustörf í barnaskóla til að framfleyta fjölskyldunni þegar hann var sautján ára. Hann fór frá heimabænum árið 1945, 21 árs að aldri, staðráðinn í því að afla sér eins mikillar háskólamenntunar og mögulegt væri. Eftir að hafa kennt í skólum í heimalandinu fékk hann styrk til náms í Fort Hare-háskóla í Suður-Afríku þar sem hann fékk fyrstu háskólagráðurnar, í sagnfræði og enskum bókmenntum. Hann útskrifaðist þaðan árið 1951 og hélt hann náminu áfram í Simbabve og Tansaníu. Mugabe fékk alls sjö háskólagráður, flestar þeirra í fjarnámi á vegum Suður-Afríkuháskóla (Unisa, stærsta háskóla Afríku) og Lundúnaháskóla.

 Mugabe var boðið í starfsnám fyrir kennara í Gana eftir að landið fékk sjálfstæði árið 1957. Þar kynntist hann stóru ástinni í lífi sínu – kennslukonunni Sally Hayfron – og þau áttust árið 1961.

Mugabe-hjónin voru mjög náin og talið er að Sally hafi verið eini vinur hans í raun. Hún dáði eiginmann sinn og segja má að hún hafi gengið honum í móðurstað – tekið við þeirri köllun móðurinnar að hefja hann til skýjanna. Hún lést árið 1992.

Robert Mugabe og Fidel Castro.
Robert Mugabe og Fidel Castro. AFP

 Álitinn þjóðhetja

Mugabe sneri aftur til heimalandsins árið 1960 og haslaði sér þá völl í stjórnmálunum. Hann gekk til liðs við þjóðfrelsishreyfinguna ZAPU sem var undir forystu verkalýðsleiðtogans Joshua Nkomo. Sú hreyfing klofnaði og Mugabe gekk í klofningshreyfinguna ZANU árið 1963. Hann var handtekinn árið eftir ásamt fleiri forystumönnum hreyfinganna tveggja. Næstu tíu árin var honum haldið í fangelsi.

 Í fangelsinu nam Mugabe lögfræði og lauk tveimur af háskólagráðunum sjö í fjarnámi. Hann sýndi einnig leiðtogahæfileika í fangelsinu, stappaði stálinu í félaga sína og hjálpaði þeim að nota tímann til að mennta sig í stað þess að eyða honum til einskis.

Mugabe var kjörinn leiðtogi flokks síns, ZANU, árið 1974. Eftir meira en tíu ára fangelsisvist var hann leystur úr haldi í desember það ár ásamt öðrum forystumönnum flokksins. Árið eftir fór hann til grannríkisins Mósambík til að taka þátt í stríðinu gegn stjórn hvíta minnihlutans í heimalandi sínu. Flokkur hans og ZAPU, undir forystu Nkomo, tóku höndum saman og börðust með vopnum frá Sovétríkjunum, Kína, Norður-Kóreu, Kúbu og Víetnam.

Þegar stríðinu lauk árið 1979 litu margir Afríkumenn á Mugabe sem þjóðhetju. Flokkur hans, ZANU, sigraði í þingkosningum árið 1980 og Mugabe varð þá forsætisráðherra. Í kosningunum naut flokkur Roberts Mugabe einkum stuðnings shóna-manna í norðanverðu landinu. Andstæðingar hans í ZAPU nutu hins vegar fylgis ndebele-manna í sunnan- og vestanverðu Simbabve.

Þegar Mugabe komst til valda lofaði hann að stuðla að sáttum milli blökkumanna og hvíta minnihlutans annars vegar og milli flokka blökkumanna hins vegar. Hann var þó aldrei lýðræðissinni og vildi koma á alræði eins flokks, líkt og vinur hans Julius Nyerere gerði í Tansaníu eftir að landið fékk sjálfstæði árið 1961.

Mugabe vildi að sættirnar byggðust á því að hann yrði sjálfur alráður í landinu. Þeir sem lögðust gegn því voru álitnir föðurlandssvikarar.

AFP

Leiðtogi ZAPU, Nkomo, fékk sæti í ríkisstjórninni en honum var vikið úr henni árið 1982. Mugabe sakaði ndebele-menn um að hafa lagt á ráðin um að steypa honum af stóli. Mugabe og bandamenn hans í hernum notuðu þetta meinta valdaránssamsæri sem átyllu til að berja á ndebele-mönnum í Matabelelandi (í suðvestur- og vesturhluta Simbabve). Talið er að hersveitir Mugabe hafi orðið 10.000 til 20.000 manns að bana á árunum 1982 til 1985, að sögn Réttlætis- og friðarnefndar kaþólsku kirkjunnar í Simbabve. Hersveitirnar voru einnig sakaðar um að hafa nauðgað konum og reynt að svelta íbúa Matabelelands til undirgefni.

Leiðtogar flokkanna tveggja undirrituðu friðarsamning árið 1987 og ZAPU var innlimaður í stjórnarflokkinn sem fékk nafnið ZANU-PF. Sama ár varð Mugabe forseti Simbabve og völd embættisins voru aukin. Hann var endurkjörinn á árunum 1990, 1996, 2002, 2008 og 2013. Mugabe og bandamenn hans beittu öllum brögðum á þessum tíma til að halda völdunum; ógnunum, ofbeldi, atkvæðakaupum og kosningasvikum.

„Annar sonur Guðs“

Margt bendir til þess að Mugabe hafi borið hagsmuni þjóðarinnar fyrir brjósti í byrjun. Þrá hans eftir aðdáun bar hann hins vegar ofurliði og hann hætti að gera greinarmun á eigin hagsmunum og þjóðarhag. Hann leit á sig sem þjóðhetju, gerði lítið úr hlut annarra í frelsisbaráttu blökkumanna í Simbvabve og þegar sótt var að honum sakaði hann andstæðinga sína um landráð. Dýrkunin á leiðtoganum gekk svo langt að andstaða við hann var einnig álitin óvirðing við sjálfan Guð.

 Ein af skýringunum á því að Mugabe hélt völdunum svo lengi er sú að stuðningsmenn hans litu á hann sem guðdómlegan frelsara blökkumanna í Simbabve og jafnvel allri Afríku. Aðdáendur Mugabe skírskotuðu meðal annars til hefðbundinnar andatrúar shóna-manna og drógu upp þá mynd af leiðtoganum að hann væri arftaki konunga sem þáðu vald sitt frá öndum forfeðranna. Til að mynda færðu ættbálkahöfðingjar honum oft gjafir sem áður voru ætlaðar konungum shóna-manna. Hann fékk einnig mikið af því valdi sem höfðingjarnir höfðu haft í samfélagi shóna-manna, meðal annars vald til að úthluta jarðnæði.

Mugabe var einnig spyrtur við Guð kristinna manna. Stuðningsmenn hans líktu honum meðal annars við Móse sem leiddi gyðinga út úr Egyptalandi. Hann var sagður vera „nýr Móses“, „messías“, „annar sonur Guðs“ og „gjöf frá Guði“ sem hafi valið hann til að frelsa blökkumenn undan kúgun nýlenduherranna.

Ummæli fyrrverandi biskups í Harare, Nolberts Kunonga, lýsa vel afstöðu margra kristinna Simbabvemanna til Mugabe fyrstu valdaár hans: „Sem kirkjunnar menn lítum við hann öðrum augum. Að áliti okkar er hann spámaður Guðs eins og Móses, sendur til að frelsa Simbabvemenn frá viðjum hungurs. Guð ól hann upp til að endurheimta land okkar og útdeila því til Simbabvemanna. Við köllum það lýðræði magans.“

Dýrkunin á Mugabe sem guðlegum frelsara var í hámarki fyrstu valdaárin þegar yfirlýsingar hans um sættir og fyrirgefningu þóttu endurspegla boðskap Krists. Hún minnkaði hins vegar eftir árið 1991 þegar harðnaði á dalnum en virðist hafa aukist aftur eftir að jarðir voru teknar af hvítum bændum eftir síðustu aldamót til að útdeila þeim til blökkumanna. Líklegt er að Mugabe hafi ákveðið að láta til skarar skríða gegn hvítu bændunum til að endurheimta fyrri ímynd sína sem frelsari blökkumanna.

„Aðeins Guð getur komið mér frá völdum“

Mugabe ýtti undir dýrkunina. Hann leit svo á að hann hefði fengið vald sitt frá Guði, frekar en frá þjóðinni í kosningum, eins og fram kom í ummælum hans eftir að hann og flokkur hans biðu ósigur fyrir stjórnarandstöðuflokknum Lýðræðishreyfingunni (MDC) í þingkosningum og fyrri umferð forsetakosninga árið 2008: „Aðeins Guð getur komið mér frá völdum – ekki MDC, ekki Bretar. Við látum það aldrei viðgangast að atburður eins og kosningar hnekki sjálfstæði okkar, aðeins með pennastriki á kjörseðil, hnekki fullveldi okkar og öllu því sem við börðumst fyrir og öllu því sem félagar okkar fórnuðu lífi sínu fyrir. Það var Guð sem kom mér í þessa stöðu, ekki Bretarnir. Þannig að það er aðeins Guð sem getur komið mér frá.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert