Net Róhingja tekið úr sambandi

Frá flóttamannabúðunum Hakimpar í Ukhia héraði.
Frá flóttamannabúðunum Hakimpar í Ukhia héraði. AFP

Stjórnvöld í Bangladess skáru í dag á aðgang að 3G- og 4G-nettengingu í flóttamannabúðum Róhingja. Um er að ræða aðgerð sem í er farið vegna vaxandi óánægju ráðamanna með misheppnaðar tilraunir til að senda Róhingja aftur til Búrma (Mijanmar). 

Þrátt fyrir að fyrir tveimur árum hafi samkomulag náðst milli Bangladess og Búrma um að senda Róhingja aftur til Búrma hefur hér um bil enginn af þeim 740.000 sem flúðu eftir árásir hersins í ágúst 2017 snúið aftur. 

Hafa stjórnvöld því tekið 3G-, 4G- og LTE-nettengingu af svæðunum þar sem Róhingjar halda til í bæjunum Teknaf og Ukhia, er haft eftir tilkynningu frá forstöðumanni fjarskiptastofnunar í Bangladess. Í bæjunum Teknaf og Ukhia, sem standa nærri landamærunum við Búrma, eru um 36 flóttamannabúðir þar sem Róhingjar búa við vosbúð og vægast sagt bágan kost. 

mbl.is