Ellefu fórust í bílasprengingu

Frá grafreit í bænum Azar í Sýrlandi.
Frá grafreit í bænum Azar í Sýrlandi. AFP

Ellefu létu lífið er sprengja sprakk í bíl í bænum Al-Rai í Sýrlandi, nálægt landamærunum að Tyrklandi, en bærinn er á valdi uppreisnarmanna hliðhollra Tyrkjum. Árásin er sú mannskæðasta á svæðinu frá í júní er 19 létu lífið í bílasprengingu við mosku utan við markað í nágrannabænum Azaz. Árásin nú var gerð utan við spítala, en enn hefur enginn lýst yfir ábyrgð á henni.

Stríðið í Sýrlandi hefur nú varað í átta ár og hafa Kúrdar komið sér upp nokkurs konar sjálfstjórnarsvæði í norðvesturhluta landsins, en Tyrkir skilgreina ráðamenn þar sem „hryðjuverkamenn“.

Tyrkneskar hersveitir og bandamenn þeirra úr röðum sýrlenskra uppreisnarmanna hófu hernaðaraðgerðir gegn Ríki íslams og sveitum Kúrda í Norður-Sýrlandi árið 2016 og hafa haft bæina Al-Rai og Azaz á valdi sínu síðan þá.

Bandaríkjamenn styðja aftur á móti Kúrda og hafa sveitir þeirra einnig átt í stríði við Ríki íslams. Í mars náðu hersveitir þeirra á vald sitt síðasta landsvæðinu sem var undir stjórn Ríkis íslams, borginni Baghuz við bakka árinnar Efrat fjórðu stórárinnar sem getið er í Mósebók. Vígamenn Ríkis íslams halda þó áfram að valda óskunda á svæðinu með skæruhernaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert