Eftirrit símtalsins vistað með háleynilegum skjölum

Skýrsla uppljóstrarans um meinta misnotkun Trump á forsetaembættinu var gerð …
Skýrsla uppljóstrarans um meinta misnotkun Trump á forsetaembættinu var gerð opinber í dag. AFP

Ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta reyndi að koma í veg fyrir að eftirrit samtals forsetans við Volodimír Zelenskí Úkraínuforseta liti dagsins ljós, samkvæmt skýrslu uppljóstrarans innan leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna sem lagði fram formlega kvörtun vegna framferðis forsetans.

Skýrsla uppljóstrarans var gerð opinber í dag, en í henni koma fram ásakanir um að Trump hafi reynt að nota forsetaembættið í eigin þágu, með því að þrýsta á Zelenskí um að hefja rannsókn á Joe Biden, pólitískum andstæðingi sínum.

Í skýrslu uppljóstrarans segir að embættismenn í Hvíta húsinu hafi ekki vistað eftirrit samtalsins á því tölvukerfi sem venjulega er notað til að vista slíka upplýsingar. Þess í stað var eftirritið vistað í öðru kerfi, sem notað er til þess að vista „leynilegar upplýsingar sem eru einstaklega viðkvæms eðlis“.

Uppljóstrarinn segir kvörtun sína byggða á fjölda samtala við embættismenn innan Hvíta hússins, sem hafi haft miklar áhyggjur af efni símtalsins við Úkraínuforseta.

Málið er „einstakt og fordæmalaust,“ sagði Joseph Maguire, starfandi yfirmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna, er hann svaraði spurningum þingmanna í dag. Hann sagðist telja að uppljóstrarinn hefði breytt rétt með því að tilkynna formlega um málið.

Joseph Maguire, starfandi yfirmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna, svarar spurningum þingmanna í …
Joseph Maguire, starfandi yfirmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna, svarar spurningum þingmanna í dag. AFP

Þetta mál hefur orðið til þess að Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, hefur sett af stað formlega rannsókn á því hvort ákæra skuli Trump til embættismissis.

Hvíta húsið og Trump verjast

Stephanie Grisham, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sagði í yfirlýsingu í dag að ekkert hefði breyst þrátt fyrir að skýrsla uppljóstrarans hefði verið gerð opinber. Hún sagði kvörtunina samansafn vitnisburða sem ekki væru komnir frá fyrstu hendi og sýndu þess utan ekkert óviðeigandi. Grisham sagði að forsetinn hefði tekið hið óvenjulega skref í gær að birta eftirrit samtalsins í heild sinni og heimilað með því birtingu uppljóstraraskýrslunnar. „Það er af því að hann hefur ekkert að fela,“ sagði Grisham.

Trump hefur farið mikinn á Twitter. Í hádeginu í dag að íslenskum tíma tísti hann í hástöfum um að demókratar væru að reyna að „EYÐILEGGJA REPÚBLIKANAFLOKKINN OG ALLT SEM HANN STENDUR FYRIR.“ Hann hvatti repúblikana til þess að þétta raðirnar, láta hart mæta hörðu og berjast gegn þeim tilraunum andstæðinganna. „LANDIÐ OKKAR ER AÐ VEÐI“, ritaði forsetinn, eins og lesa má hér að neðan.


Repúblikanaþingmaðurinn David Nunes er varaformaður í leyniþjónustunefnd þingsins, hvar Maguire situr nú fyrir svörum. Hann segir demókrata vera í „upplýsingastríði gegn forsetanum“ og að meginstraumsmiðlar vestanhafs hafi tekið þátt í því stríði með þeim.

„Þessi aðgerð hófst með fjölmiðlaumfjöllun,“ sagði Nunes, sem sakaði demókrata um að vilja ekki svör heldur opinbert sjónarspil.

Annar þingmaður repúblikana, Will Hurd, segir þó að það sé „margt“ í skýrslu uppljóstrarans sem veki áhyggjur. Hann segir að rannsaka þurfi málið í þaula og að fyrsta skrefið sé að fá uppljóstrarann sjálfan til þess að koma fyrir þingnefnd.

Hurd er einn af fáum þingmönnum repúblikana sem talað hafa gegn forsetanum, en hann telur hann hafa skaðleg áhrif á Repúblikanaflokkinn. Hurd hyggst ekki gefa kost á sér til endurkjörs í öldungadeildinni árið 2020.

Bein textalýsing BBC af framvindu mála

Umfjöllun New York Times þar sem fylgjast má með vitnisburði Maguire í beinni

mbl.is