Vill fá að vita hver upplýsti uppljóstrarann

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Uppljóstrarinn sem kvartaði yfir framferði Donalds Trumps Bandaríkjaforseta vegna samskipta hans við erlenda þjóðhöfðingja er CIA-starfsmaður sem vann áður í Hvíta húsinu, samkvæmt heimildum bandarískra fjölmiðla.

Greint var frá því í gær að Hvíta húsið hefði reynt að koma í veg fyr­ir að eft­ir­rit sam­tals for­set­ans við Volodimír Zelenskí Úkraínu­for­seta liti dags­ins ljós með því að fá það vistað með háleynilegum skjölum. Í samtali forsetanna reynir Trump að fá Zelenskí til að taka Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda, til rannsóknar.

Trump krafðist þess hins vegar í gær að fá að vita hver upplýsti uppljóstrarann um símtalið og sagði þann einstakling „fara nærri því að vera njósnara“ og njósnarar hefðu fengið aðra meðferð í gamla daga.

New York Times komst yfir hljóðupptökur af lokuðum fundi Trumps með starfsmönnum sendiskrifstofu Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Segir blaðið forsetanum hafa verið mikið niðri fyrir. Ræddi hann ítrekað um uppljóstrarann og sagði fjölmiðla vera spillta fyrir að greina frá kvörtun hans. Hann vildi einnig vita hver hefði upplýst uppljóstrarann um símtalið, því það hefði hann ekki heyrt sjálfur og sagði því næst: „Þið vitið er það ekki, hvað við gerðum í gamla daga þegar við vorum klók? Við tókum örlítið öðruvísi á njósnurum og föðurlandssvikum en við gerum í dag...“

Hefur New York Times eftir heimildamönnum sem sóttu fundinn að menn hafi sett hljóða er forsetinn minntist á meðferðina á njósnurum. 

Formenn þriggja þingnefnda sem allir eru demókratar fordæmdu í gær orð forsetans og sögðu þau jafnast á við „ámælisverðar hótanir gegn vitni“ og fælu í sér tilraun til að hamla rann­sókn á þingsins á því hvort ákæra skyldi forsetann til emb­ætt­ismissis vegna brota í starfi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert