Fall Thomas Cook er Spáni dýrt

Mörg spænsk hótel sjá fram á vandræði, enda talið að …
Mörg spænsk hótel sjá fram á vandræði, enda talið að 1,3 milljónir ferðamanna komist ekki á áfangastað vegna falls Thomas Cook. AFP

Gjaldþrot bresku ferðaskrifstofunnar Thomas Cook hefur bagaleg áhrif á ferðamennsku á vissum stöðum á Spáni og er fyrirséð að gjaldþrotið muni kosta fjölda fólks lífsviðurværi sitt.

Spænsk samtök hóteleigenda segja að um 1,3 milljónir gesta sem búist var við í haust og í vetur muni ekki skila sér á staðinn, sökum gjaldþrotsins. Samkvæmt þeim mun þetta hafa þær afleiðingar að a.m.k. 500 hótelum verði lokað. Tapið er sagt hlaupa á hundruðum milljóna evra.

BBC fjallar um málið í dag og segir stöðuna vera versta á Kanaríeyjum og Baleareyjum, en á meðal þeirra eru eyjurnar Mallorca, Minorca og Ibiza. Á þessum sumardvalarstöðum eru mörg hótel sem voru með langtímasamninga við Thomas Cook um nýtingu nær alls gistirýmis síns.

Frá Palma-ströndinni á Mallorca.
Frá Palma-ströndinni á Mallorca. AFP

Á Kanaríeyjum var hótelið Fuerteventura Princess fyrst til þess að loka dyrum sínum í kjölfar gjaldþrots Thomas Cook. 688 herbergi eru á hótelinu og var samningur við breska ferðarisann í gildi til ársins 2023, sem tryggði það að á hverjum tíma var 95% herbergjanna í leigu fyrir viðskiptavini Thomas Cook. Eitt hundrað og sextíu starfsmönnum hótelsins hefur verið sagt upp. Fleiri hótel eru í svipaðri stöðu.

Spænska ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðapakka að andvirði 300 milljóna evra til þess að hjálpa fyrirtækjum að takast á við gjaldþrotið. Á meðal aðgerðanna eru neyðarlán til fyrirtækja í vanda og lækkuð flugvallagjöld, sérstaklega á áðurnefndum Kanarí- og Baleareyjum. Auk þess ætlar ríkisstjórnin að verja 500 milljónum evra í innviðaverkefni í ferðamennsku.

mbl.is