Stefnir í stórsigur Laga og réttlætis

Jaroslaw Kaczynski, formaður PiS.
Jaroslaw Kaczynski, formaður PiS. AFP

Stjórnmálaflokkurinn Lög og réttlæti (PiS) virðist hafa unnið stórsigur í þingkosningunum í Póllandi sem fram fóru í gær. Nú á níunda tímanum höfðu 82,79% atkvæða verið talin og hlaut flokkurinn 45,16% þeirra.

Flokkurinn fer fyrir núverandi ríkisstjórn. Verði þetta niðurstaðan, þegar öll atkvæði hafa verið talin, er fylgi flokksins meira en spár höfðu gert ráð fyrir, en samkvæmt útgönguspám í gær var flokkurinn með 43,6% atkvæða. 

Sá flokkur sem fékk næstflest atkvæði, stjórnarandstöðuflokkurinn Borgarabandalagið, KO, fékk 26,1%, sem er minna en útgönguspá hafði gert ráð fyrir sem var 27,4%.

Lög og rétt­læti er í sterkum tengslum við kaþólsku kirkjuna í Póllandi og hef­ur lagt áherslu á um­fangs­mikl­ar aðgerðir í vel­ferðar­mál­um og and­stöðu við rétt­inda­bar­áttu hinseg­in fólks. Á kosningahátíð í gær sagði leiðtogi flokksins, Jaroslaw Kaczynski, að mikil vinna væri fram undan. Breytinga væri þörf í Póllandi.

Stjórnmálaskýrendur sögðu fyrir kosningarnar að yrði af sigri PiS myndu líkur aukast á ágreiningi pólskra stjórnvalda við Evrópusambandið vegna mannréttindamála.

mbl.is