Lést þegar róla féll úr tívolítæki

Skemmtigarður og tívolítæki. Banaslys varð í slíku tæki í bænum …
Skemmtigarður og tívolítæki. Banaslys varð í slíku tæki í bænum Firminy í Frakklandi í gær. AFP

Kona lést og önnur slasaðist alvarlega þegar þær féllu úr rólu í skemmtitæki á skemmtun í bænum Firminy í Frakklandi í gærkvöldi. Konurnar voru í meira en tíu metra hæð í tækinu, sem snýr rólum hratt í hring, þegar sá hluti tækisins, sem róla þeirra var fest við, féll til jarðar.

Þegar sjúkralið kom á staðinn var önnur konan, sem var 24 ára gömul, þegar látin. Hin konan sem er tvítug var flutt á sjúkrahús. Samkvæmt AFP-fréttastofunni voru fjórir; eigendur og stjórnendur tækisins, teknir fastir og færðir á lögreglustöð.

Sérfræðingar eru á leið á staðinn til að rannsaka hvað fór úrskeiðis.

Skemmtunin í Firminy er haldin árlega, þar eru um 250 skemmtitæki af ýmsum gerðum og jafnan sækja hana um 100.000 gestir. Þetta er í þriðja skiptið undanfarið eitt og hálft ár sem slys verður í skemmtitæki í Frakklandi. Í mars í fyrra lést karlmaður þegar skemmtitæki, áþekkt því í Firminy í gær, féll um koll í borginni Lyon og á gamlársdag í fyrra þurftu átta manns að verja stórum hluta dagsins í vagni á rússíbana sem hafði fest hátt uppi í borginni Rennes. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert