Brexit-laus sjónvarpsstöð í loftið

Engar Brexit-fréttir verða fluttar á nýju sjónvarpsstöðinni sem hefur útsendingar …
Engar Brexit-fréttir verða fluttar á nýju sjónvarpsstöðinni sem hefur útsendingar í dag. Ljósmynd/Sky News

Sjónvarps- og fréttastöðin Sky mun hefja útsendingar á nýrri fréttastöð í dag sem verður laus við allt sem tengist fyrirhugaðri útgöngu Breta úr Evrópusambandinu: Brexit. 

Stöðin ber heitið „Sky News Brexit-Free“ og hefjast útsendingar klukkan 17 að staðartíma í dag. Kannanir sýna að Bretar eru farnir að forðast fréttaumfjöllun um Brexit. Rúm þrjú ár eru síðan breska þjóðin ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu að yfirgefa ESB en samningaviðræðurnar um útgönguna hafa gengið brösuglega, vægast sagt. 

Útsendingar á stöðinni verða í um fimm klukkutíma alla virka daga og verður áherslan lögð á harðfylginn en hefðbundinn fréttaflutning. 

Sky-fréttastofan mun áfram sinna Brexit-umfjöllun á hefðbundnu fréttastöðinni en líklegt er að draga muni til tíðinda á næstu dögum þar sem stífar samningaviðræður hafa staðið yfir síðustu sólarhringa. Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, hefur lýst því yfir að samkomulag verði að nást fyrir miðnætti ef takast á að leggja það fram á leiðtogafundi Evrópusambandsins sem hefst á morgun. 

John Ryley, fréttastjóri Ske News, segir ákvörðunina djarfa en að veirð sé að koma til móts við ákveðinn hluta almenning. „Nýja stöðin veitir fólki einfaldlega tækifæri til að taka sér smá hlé frá Brexit,“ segir hann. 

Kannanir í Bretlandi sýna að þriðjungur Breta forðast alfarið fréttir og yfir 70% þeirra segja Brexit vera ástæðuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert